01.11.2014 11:17

"Dagar vors lífs .............."

Kæru skólasystkin!

Hjartans þakkir fyrir frábæran 6-tugs ára hitting um daginn. Ég og eflaust fleiri höfðum beðið hans með mikilli eftirvæntingu og spenningi yfir því bæði að hittast og einnig að koma vestur, koma heim í átthagana. Allt í einu var stundin orðin raunveruleg; við samankomin í Safnhúsinu í Neðstakaupstað - sezt að snæðingi. Það var fiskur - ekki bara ein tegund, heldur var eins og allir fiskarnir úr náttúrufærðibókinni væru mættir hálfsprikklandi á borðinu bakatil í verelsinu. Ég fyrir mitt leiti er í alvöru búinn að fá yfirmig nóg af þessum fiski - en hann var samt borðaður af öðrum og það í miklu magni, þannig að kokkurinn þurfti ekki að óttast leyfar. Kannski var það spennan í loftinu sem minnkaði matarlystina - en svo kom kaffi og Síríus súkkulaði meððí og það fór betur niður. Ég kom líka aðeins of seint - en það lentu fleiri í því og gátu samt borðað allt sem bauðst. Kvöldið var fagurt; úti var brjálaður vestanvindur, en í stofunni hlýnaði hægt og bítandi - einnig í kroppnum. Byrjað var að segja sögur sem mikið var búið að hvetja til, en flestar voru þær saklausar - enda hópurinn eðalárgangur. Einhverjum þótti þó tilveran fábreytt og bryddaði upp á söng sem tekið var undir með nikkuspili. Við urðum snemma þreytt, enda komin á aldur, svo ákveðið var að fara til kojs til að eiga góðan morgundag ......

Það var fjörugur hópur sem mætti framan við Gamla Bakaríið næsta dag til að fylkja liði í kirkjugarðana til að blessa yfir leiði fallinna systkina. Af áttatíu Ísfirskum bæjarpúkum fæddum á því merka ári 1954, eru nú 8 fallin frá á leiðinni til þessara merku tímamóta. Að þeirri athöfn lokinni var safnast saman í Ísafjarðarkirkju, þar sem sem skólabræðurnir Gunnlaugur Jónasson og Jón Páll Halldórsson tóku við að rekja sögu staðarins og ganga um götur bæjarins með tilheyrandi frásögn á hverjum stað. Þrátt fyrir sól í heiði, var vindur napur og því notalegt að komast inn undir þak í Edinborgarhúsinu í kaffi og kruðerí frá Gamla. Þar gafst enn eitt tækifærið til skrafs og upprifjunar á liðnum dögum ...........

Þá var kominn enn einn hvíldartíminn áður en tekist yrði á við kvöldið í Krúsinni. Ég var í alvöru að koma þangað í fyrsta sinn síðan þar voru haldin jólatrésböll Verkalýsfélagsins, sem enduðu með einu rauðu eppli að gjöf. Það var ekkert vesen að komast inn, þó í dyrurnum stæði vestfirskt vöðvatröll - hann brosti meira að segja, eins og hann þekkti mig. Í kjallaranum var alvöru Krús, með rökkurlýsingu og rauðmáluðum veggjum, hljóðfærin uppstillt á pallinum og lagt á borð fyrir bara okkur og enga aðra. Það var ljúfur matur (kjöt) sem rann fljótlega inn á borðin og mettuðu okkur vel fyrir skemmtiatriðin. Þar fóru á kostum talendur árgangsins og var mjótt á mununum hver hafði betur í að mæra okkur, þeir sem töluðu frá hjartanu eða þeir sem töluðu í bundnu máli. Alla vega var vel hlegið, grátið og slegið á læri. Þessum frábæra degi lauk svo ýmist með sveiflu á gólfinu eða pískri í horni.

Við (sumir meira en aðrir) höfum verið ótrúlega ötul að taka fram tímamót til að minnast og gleðjast saman yfir því "að vera til og vera við"! Hittingur sem þessi er hvorki sjálfsagður og verður heldur ekki til af sjálfu sér. Áður fyrr var slík uppákoma bara tilkynnt og svo gerðust bara hlutirnir. Sjálfkrafa ?, nei - ekki aldeilis; það gerist ekkert sjálfkafa, það er alltaf "maður á bakvið tjöldin"! Eins og ég sagði einu sinni (ekki tvisvar), þá þarf alltaf að hafa fyrir hlutunum til þess að þeir takist vel og það viljum við öll. Þá var ég að væla yfir því að heyra ekki í fleirum á síðunni okkar, en með tímanum hefur "meðvirknin" aukist og sú hætta við að tjá sig virðist vera að líða hjá.  Þó meginþunginn í undirbúningi þessa hittings hafi lent á staðarhöldurum sem fyrr, þá held ég að við hérna "hinumegin" höfum náð að leggja smá hönd á plóg. En meira þarf (almennt), ef duga skal eða  ..... er þetta kannski bara allt í lagi - þetta hefur hvort sem er alltaf gengið upp .... :)) 

Ég held að þetta tengist hreinlega mismunandi hlutverkum sem eru í okkur og ná með tímanum að þroskast á ólíkan hátt rétt eins og hvað annað. Kannski er það þess vegna sem við erum svo frábær saman að vegna ólíkra hlutverka, þá verða engir eða færri árekstrar og hópurinn nær betri samheldni en aðrir :) Þegar upp er staðið að þessu sinni get ég staðfest hvað mig varðar og það sem fram hefur komið á síðunni, að vel hafi tiltekist. Það verður hins vegar að viðurkennast að það varð undarlega hljótt í kjölfarið. Kannski er það rétt þegar öllu er á botninn holft að aldurinn hafi þar eitthvað að segja. Líffræðilega séð er það engin spurning, en svo geta margir utanaðkomandi þættir einnig haft þar áhrif.

Kæru skólasystkin. Ég vil framfæra hjartans þakkir fyrir hönd þeirra sem mættu, til þeirra sem leynt og ljóst lögðu hönd á plóg til að gera þennan 60-tugs ára hitting að þeim skemmtilega veruleika sem hann varð. Ég vil enn einu sinni hvetja okkur til að halda á fram að tala saman, hittast og eiga ánægjulegar samverustundir, því hver stund og hver dagur sem líður kemur aldrei aftur nema sem minning.

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Tómasar Guðmundssonar, "Dagar vors lífs".

Enn leysa dagar vors lífs
hver annan af hólmi,
þótt lögð sé á þá sú kvöð
að bera oss, fávísa menn,
þrotlaust um allar vegleysur vöku og svefns,
og hvorki þeir né vér séum látnir vita
hvert erindið sé (sem ýmsum finnst bagalegt)
og því síður hvar eða hvenær ferðinni lýkur.

En veki mönnum óvissa nokkurn ugg
þeim ætti að vera fróun að vita það,
að aldrei nema einum þessara daga
er ætlað að skila oss af sér. seint eða snemma,
alla leið í öruggan gististað.

11.05.2014 11:16

"Nú skil ég stráin .........."

Kæru skólasystkin!

Loxins er maí-inn kominn og gott betur. Ég er meira að segja búinn að fá "áminningu" um að ég sé orðinn á eftir í textanum okkar um lífið og tilveruna. Við því eru margar handfastar skýringar; því þetta er annars vegar mikill annatími í skólanum, en einnig hefur verið óvenjumikið af aðgerðum sem allar hafa líka þurft "sinn tíma"! Það ánægjulega við hvorutveggja er þessi tilfinning eins hjá stránum sem eru að losna undan spennu og fargi snjós og klaka þegar sólin brýst með birtu og hlýju inn í kulda, myrkur og vonleysi og hleypir inn gleði, tilhlökkun og nýrri von fyrir framtíðinni.

Í vetur hefur mikið mætt á 4. árs læknanemum, sem hafa annars vegar verið í verklegri þjálfun og hins vegar í fyrirlestrum. Þeir hafa nýlokið prófum í verklega hlutanum sem ég kalla "uppskeruhátið", því þá eru þau að sýna og sanna hvernig okkur hefur tekist til við þennan hluta uppeldisins. Þarna reynir ekki bara á minnið heldur einnig framkomu þeirra, verklag og hvernig þau vinna úr þeim upplýsingum sem þau ná að afla sér. Það er því mikil spenna í loftinu, ekki bara þeirra megin, heldur einnig mín megin - hvernig tekist hefur til. Þarna skiptast á skin og skúrir, hlátur og grátur, Mér verður því oft hugsað til ´54 árgangsins okkar, þegar ég skynja hvað einn árgangur getur verið ólíkur öðrum í samvinnu og samstöðu. Í framhaldinu - núna skella svo skriflegu prófin á, þar sem hver og einn grúfir sig yfir svarblöðin til að klemma fram það sem situr eftir í hugarfylgsnunum, en svo svo rísa þau aftur upp eins og stráin á vorin ..........

Í vor hafa 3. árs læknanemar verið í rannsóknarverkefni þar sem þau taka fyrir ákveðin vandamál eins og "hversu algeng hryggbrot hafa verið á síðastlinum 10 árum þar sem einnig hefur orðið áverki á mænuna með tilheyrandi taugaeinkennum" og önnur rannsakaði "hversu algengt það er að börn á höfuðborgarsvæðinu hljóti beinbrot og/eða tognanir á liði við íþróttir". Þessum verkefnum lauk með ráðstefnu þar sem hver og einni kynnti niðurstöðu sína og fengu einkunn frá fundarstjóra, rannsóknarstjóra og norrkum samnemendum; lokahnykkurinn var svo ritgerðarbók sem kom úr prentun sl föstudag, en þar þarf að koma fram staða vandamálsin á heimsvísu, af hverju rannsóknin var gerð, niðurstöður hennar og hvernig þær eru í samanburði við aðrar þjóðir. Önnur stúlkan kom valhoppandi af gleði og létti yfir því að nú væri þessu lokið og afhenti mér bókinu með innilegu "knúsi"; hin stúlkan kom stuttu síðar með þungum en ákveðnum skrefum og afhenti mér sína bóka - en svo koma flóðgátt af tárum sem skolaði burtu bæði fallegan farða en einnig klaka spennu og eftirvæntingar og í kjölfarið kom breitt bros og gleðiglampi, eins og stráin á vorin ......

Að undanförnu hafa einnig verið "erfiðar" aðgerðir; ekki endilega erfiðar tæknilega séð, heldur erfiðar vegna alvarleika þess sjúkdóms sem gerði þær nauðsynlegar og þeirrar óvissu sem kemur upp um bæði núið og framtíðina. Í dag er miklu meira rætt "um hlutina", þ.e. bæði sjúkdóma og aðgerðir heldur en áður fyrr, bæði af hálfu þeirra sem eiga í hluta og einnig þeirra sem að koma. Stundum er hægt að segja með vissu "af hverju" og "hvers vegna", en stundum er það barasta ekki hægt .......! Á slíkum tíma og slíkum stundum hef ég fundið gegnum árin að þrátt fyrir allar þær breytingar sem orðið hafa á bæði okkur og þjóðfélaginu, þá eru allir tilbúnir að ræða um traust sitt á trúnna og hvernig hægt sé að varpa áhyggjunum á Guð föður okkar, hvort sem hann er á himnum eða á rúmstokknum. Þó svo ég ætli nú ekki að fara að breyta hugleiðingum mínum í prédikun, þá vildi ég bara deila með ykkur, hvílik lausn þessi umræða varð inn í tilfinningar myrkurs og vonleysis sem varð skyndilega og nýlega hjá tveimur fjölskyldum, en sem breytti kringumstæðunum í bros og gleðiglampa í kjölfar viðtals okkar, eins og stráin á vorin ......

Kæru skólasystkin. Nú er "erfiður" vetur á Íslandi senn á enda; ég segi senn, því í heimabyggð okkar eru garðar enn fullir af snjó á meðan slátturvélarnar þeysast um á Suðurlandinu. En eins og við öll munum eftir maí, þá var þetta tími prófa og undirbúnings fyrir sumarið með allri þeirri tilhlökkun sem hvert og eitt okkar átti hjá sér. Eins og að framan kemur eru tilfinningar okkar alltaf á sínum stað, af mismunandi toga og í mismiklu magni. Ég þori samt að staðhæfa að öll munum við eftir hvernig lækir og fossar mynduðust í fjöllunum okkar og hljómur þeirra og angan af grasi og blómum barst inn um gluggan í prófatinu á vorin. Ég þori einnig að staðhæfa að einhver okkar hafi verið haldinn slíkri spennu að hann eða hún hafi farið með a.m.k eina línu í Faðir vorinu áður en prófblaðinu var snúið við til að horfast í aug við þær spurningar sem biðu úrlausnar hverju sinni .... Já - texti minn í dag hefur tileinkast tilfinningum og trú og hvernig við getum með því að tala við þann sem við treystum algjörlega fyrir lausn úr vonlausum kringustæðum risið aftur upp eins og stráin á vorin ......

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Davíðs Stefánssonar: "Nú skil ég stráin"! 

Nú skil ég stráin, sem fönnin felur,
og fann þeirra vetrarkvíða.
Þeir vita það best, sem vin sinn þrá,
hve vorsins er langt að bíða.

Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu,
og svo kom hinn langi vetur.
Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó,
að vorið, það má sín betur.

Minningin talar máli hins liðna,
og margt hefur hrunið til grunna.
Þeir vita það best, hvað vetur er,
sem vorinu heitast unna.

En svo fór loksins að líða að vori
og leysa mjallir og klaka.
ég fann, að þú varst að hugsa heim,
og hlaust að koma til baka.

Þú hlýtur að vera á heimleið og koma
með heita og rjóða vanga,
því sólin Guðar á gluggann minn,
og grasið er farið að anga.

05.04.2014 09:48

Á páskum ...........

Kæru skólasystkin!

Nú eru páskarnir að bresta á og margir eflaust farnir að hugsa vestur. Hvað þýðir þetta eiginlega "að hugsa vestur"? Ætli þeir sem ættaðir eru frá öðrum stað eða eiga engra hagsmuna að gæta þar séu þá farnir að "hugsa norður" eða í einhverja allt aðra átt - kannski "til sólarlanda" eða hugsa sér ekki neina átt, heldur bara að vera á þeim stað þar sem þeir eru núna.

Allavega vitum við sem erum að vestan nokkurn veginn hvað þetta þýðir í okkar huga, Við erum ósjálfrátt að rifja minningar í hugarfylgsnum okkar eins og þegar Ísafjörðurinn okkar skartar sínu fegursta með endurspeglun fjallanna í Pollinum eða með snæviþöktum sólbjörtum fjöllum eða ysi og þysi í bænum eða dúndrandi hljómlist frá dansleik eða tónlistarhátið og tilheyrandi uppákomum til að gleðjast yfir þessum tímamótum ársins; önnur hlið þessa tíma er undirbúningur fyrir komandi próf og skólalok eða keppnir og lok skíðavertíðar. Samanlagt má segja að páskarnir á Ísafirði einkennis af nokkurskonar uppskeruhátið vetrarins og fögnuði yfir komandi vori, hækkandi sól og sumaryl.

En öllu gamni fylgir alvara. Einhver okkar eru kannski ekkert "að hugsa vestur" - hvarflar ekki að þeim, vegna þess að rætur þeirra hafa losnað eða hreinlega slitnað af margvíslegum ástæðum; þeim líður betur annars staðar. Sumir fara til kirkju af því öll fjölskyldan er að fara til messu "að fornum sið", en einhver okkar fer til að fagna upprisu Jesú Krists frá dauðum. Óháð stöðu, ástæðu og kringumstæðum er ég sannfærður um að innst inni í okkur röllum leynist fræ sem aldrei verður hægt að ná úr okkur og það er 1954 fræið. Það er þarna og hjálpar okkur í blíðu og stríðu til að hugsa til hvers annars, sína samstöðu og samheldni og gera tímann okkar að dýrmætustu stund hverju sinni.

Kæru skólasystkin. Árið í ár er einmitt slík tímamót þar sem okkur gefst tækifæri til að í alvöru fagna með hvert öðru. Eins og þeir sem lesa síðuna okkar sjá glögglega eru skráðir afmælisdagar okkar 80 talsins og telst örugglega til stærsta árgangs sem orðið hefur til í landinu. Þó einhverjir vilji láta lítið fyrir sér fara, þá erum við öll svolitið börn inn í okkur þannig að ein afmæliskveðja mun ekki skaða okkur til frambúðar. Ég vil því nota tækifærið til að óska okkur öllum gleðilegrar páskahátíðar hvernig svo sem henni verður háttað og hvetja okkur til að óspart senda inn afmæliskveðjur til hver annars á viðeigandi dögum , hver "með sínu nefi"!

Orðum mínum til stuðnings í dag ætla ég að vitna í ljóð Þorgeirs Sveinbjarnarsonar, "Á páskum"! 

Aldrei hefur birta morgunsins
og litur landsins
ljómað eins skært og í dag.

Sjá, auga lyftist
og fær ljós að gjöf.
Lífbrún fagnar moldin
og angar.

Enginn skuggi
við gröf.

Geisli leikur tónmjúkt
sterkri hendi
við stráin.

Enginn
dáinn.

Gangan er létt
úr garði
til glaðra endurfunda.

Það sem var
er heilt

framundan

horfið,
en ekki liðið.

Í birtu morgunsins
mætir þú Kristi
við hliðið.

08.03.2014 10:05

"Sál þín er sól ............."

Kæru skólasystkin!

Í kjölfar mikils húllum hæ og sigra í nafni 1954 á Sólarkaffinu, hefur hver lægðin á fætur annarri dunið á Eyjunni okkar með annað hvort grenjandi rigningu eða snjókomu. Já - hver þekkir ekki til þess að stórsigur sé ekki samningur upp á eilífa sælu .... Ef ræða Bjarndísar er grannt lesin og orð hennar hugleidd, þá kemur í ljós að inn á milli hlátraskalla eru raunir sem tekið var á og (vanda)málin löguð eða leyst eða samið um og sæst ....... og gleðin tók við (tók völdin) á ný?
    Gleðin tók völdin á ný - gerði hún það virkilega eða var þetta ákvörðun að taka gleðinni á ný, þar sem ekkert annað var í boði. Hver er svo sem að bjóða upp á marga valkosti við erfiðar kringumstæður aðrir en við sjálf. Það er örugglega stundum auðveldara "að dvelja í fortíðinni", en það leysir aldrei orðinn hlut, gefur okkur aðeins möguleika á að hugleiða hann á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Í raun var Bjarndís að segja okkur: "stormar hafa stælt mig", en ég tók þá ákvörðun að "sál mín væri sól" ......

Kær frændi minn datt af stillans um daginn og hlaut alvarlega áverka á hálshrygginn. Eftir aðgerð og í endurhæfingunni var hann svo endalaust glaður og jákvæður að umhverfið hans breyttist úr drungalegum vinnustað í Gleðispítala. Þegar ég hafði gengið úr skugga um að þetta væri ekki vegna lyfja, þá spurði ég hann hreint út hvernig á þessu stæði. "Jú, sérðu frændi, ég fer aldrei að sofa nema fyrirgefa öllum sem mér finnst að ekki hafi gert rétt og hreinsað hugann af öllu sem er að angra mig - þá sef ég án svefnpillu og er fullur af orku til að takast á við nýjan dag og verkefni".
"Vá" - sagði ég, "en ferðu þá ekki með neinar bænir"?. "Jú, jú - það geri ég líka"!
     Að svo mæltu, spratt hann út úr rúminu, fram á gang og inn í setustofu. Þar tók hann í hendina á manni í hjólastól og brosti til hans, kom svo tilbaka og settist á rúmstokkinn. Ég vissi ekki hvað var í gangi annað en að hann væri að æfa stuttar gönguferðir og svo hvíla sig. "Sérðu frændi, þessi maður getur ekki hreyft sig sjáflur eða tjáð sig, en eftir að ég fór að taka í hendina á honum og brosa til hans, þá er hann farinn að brosa þegar ég kem - það gleður mig mikið". Þrátt fyrir að frændi ætti nóg með sjálfan, þá var "sál hans orðin sól" inn þær kringustæður sem óhappið hafði valdið honum og leitt hann til!

Já, kæru skólasystkin framundan eru páskar og margir eflaust farnir að hugleiða hvað gera skuli um þá hátíð. Með framansögðu vil ég blása okkur sól í brjóst og ítreka að hugur okkar og afstaða hverju sinni ræðst að miklu leyti af þeirri ákvörðun hvernig við ætlum að taka deginum og tímanum framundan. Látum því umhverfi okkar endalaust sjá og finna til tryggðar og uppörvunar í návist okkar sem tilheyrum árgangi 1954. Orðum mínum til staðfestingar vitna ég að þessu sinni í ljóð Guðmundar Guðmundssonar, "Sál þín er sól".  

Sál þín er sól. - Ef hrösun bróðir hendir,
lát hennar yl og blíðu til hans ná.
Hún geislastrauma´ í allar átti sendir,
ef átt þú kærleiksvilja´ og himinþrá.

Sál þín er sól. - Sá góði guðdómsmáttur,
er geislum hennar stýrir, býr í þér.
Í samúð vakinn hver þinn hjartasláttur
til hjálpar öðrum styrk og gleði ber.

Sál þín er sól - Þú átt að láta ljóma
þitt ljós í samhug fyllsta´ á vegum hans,
sem berst við skilningsskort og hleypidóma,
er skyggja´ á sannleiksfána meistarans.

Sál þín er sól. - En hvort hún skín í heiði
Guðs himinljóma, valdi þínu´ er á.
Lát mildi´ og ástúð rýma´ úr hug þér reiði
og raupi´ og hatri, - fegurst skín hún þá. 

09.02.2014 08:16

"Líf þitt átt þú ..............."

Kæru skólasystkin!

"Þið áttuð Sólarkaffið", var sagt að skemmtun lokinni. Hakan lyftist, brjóstkassin þandist og hjartað barðist hraðar yfir þessari siguryfirlýsingu til handa 1954 árgangsins. Við vorum hins vegar mætt aðeins fjórðungur af öllum hópnum. Þeir sem raunverulega héldu uppi hita og þunga kvöldsins voru Konni og Bjarndís ásamt nokkrum öðrum, þó heildinni væri eignaður sigurinn. 
    Hvað gerðu þau eiginlega til þess að ná athygli okkar?; jú- þau voru þau sjálf. Konni komst að í lotum á meðan Bjarndís átti gólfið, púltið, mikrafóninn og eyru allra á meðan hún talaði. Grunntónninn í tali þeirra til okkar og annarra sem á hlustuðu byggði á lífshlaupi þeirra; lífinu á Hlíðarveginum, staðnum, blokkinni, fólkinu, sambýlinu og hvernig hlutir þróuðust. Þó svo að líf þeirra á ákveðnum tíma hafi verið mjög samtvinnað, þá var það ekki eins, því þau áttu (og eiga) "hvort sitt líf"! Engu að síður mátti sjá hvernig einn og sérhver upplifði fyrri tíma í frásögn þeirra, því ýmist datt á slík þögn að heyra mátti saumnál detta eða allt ætlaði um koll að keyra í gleði- og hlátursköllum. Það voru því Konni og Bjarndís sem "áttu Sólarkaffið" með réttu, þó svo við höfum stolist til að smjatta á því með þeim :))
    Í dag eru karlmenn farnir að tjá tilfinningar meira en áður. Tilfinningar tilheyrðu annars heimi kvenna og þeir karlmenn sem hættu sér inn á slíkar brautir voru kallaðir vælukjóar. Margvíslegar þjóðfélagsbreytingar hafa síðan leitt í ljós að karlmenn eru ekkert síður með tilfnningar en konur, heldur er það tjáningin sem er öðru vísi. Það var því mikil unun að heyra hvernig systkini okkar tjáðu sig um sama hlutinn en með mismunandi hætti konu og karls. Boðskapur þeirra skildi örugglega hver á sinn hátt, en grunntónninn var: "Líf þitt átt þú ........... " - lifðu því!
    Ég fagna því að fleiri og fleiri eru farnir að láta í sér heyra á síðunni okkar. Það að lyfta upp hendi og gefa til kynna að maður vilji leggja orð í belg eða tjá sig sérstaklega getur verið bæði auðvelt og erftitt. Ég er sannfærður um að allir hafi skoðun á hlutum hvort sem það er jákvætt, neikvætt, uppbyggjandi eða niðurlægjandi. Það minnsta sem hægt er að segja (fyrir utan að þegja) er t.d. bara hæ! Það gefur alla vega til kynna að við erum á lífi :) Það er líka hægt að tjá sig með myndum, en þær segja oft meira "orð fá lýst"!
    Tíminn líður og áður en við vitum af verður komið að hittingnum okkar í haust. Til þess að vel verði þarf að undirbúa slíkt og sjá til þess að allt lendi ekki á fárra manna (og kvenna) herðum. Það er því mikilvægt að hvert og eitt okkar strengi þess heit að í fyrsta lagi komast á staðinn og ekki sízt hugsi sig um hvernig leggja megi hönd á plóg. Þá er síðan kjörin vettvangur til að komas líku til skila eða ef einhver vill tjá sig í hljóði að senda þá tölvupóst til ritara hópsins. Tíminn er núna, þegar hver lægðin á fætur annarri skellur á eyjunni okkar, þannig að ekki er hundi út sigandi, þá gefst tækiufæri til að láta hugann reika aftur að 1960, en það verður viðmiðunarárið okkar í frásögnum.
    Ég hlakka mikið til að heyra og ekki síður bókfæra allar sögurnar sem líta munu dagsins ljós. Ég sé fyrir mér að hver og einn skrifi frá sínu hjarta eða frá sínum "sjónarhóli" og ekki undir nafni, heldur með fyrirsögninni: "Líf þitt átt þú .......... " og þannig munu sögurnar samanlagt lýsa hinu margvíslega og hinum margslunga tímaskeiði 1954 árgangsins :))

Kæru skólasystkin. Sólarkaffið 2014 varð "okkar", þó svo að hafi verið frásögn af og úr lífi Konna og Bjarndísar og allt þar í kring. Það er það gleðilega við árganginn okkar hvað við eigum margt sameiginlegt til að rifja upp og gleðjast yfir. Nýtum tímann sem er framundan - hann kemur ekki aftur - aðeins minningarnar! Orðum mínum til hvatningar vitna ég að þessu sinni í mjög stutt kvæði Jóns úr Vör til að leggja áherslu á og ítreka að það er ekki stærðin á hlutunum sem skiptir máli, heldur hugurinn á bak við þá.

Líf þitt átt þú.
Ekki á ég það.
Enginn á það
nema þú.

En hamingjuna,
hver á hana?
Hana á enginn einn.

04.01.2014 11:13

Raddir sem aldrei hljóðna ..........

Kæru skólasystkin!

Þá er nýtt ár, 2014, gengið í garð og það gamla "liðið í aldanna skaut"! Mér finnst það alltaf einkennileg tilfinning þegar kirkjuklukkurnar hljóma um jól og áramót. Klukknahljómur er nefnilega að gefa eitthvað til kynna; lest að fara af stað, bátur að leggja frá, athöfn að byrja eða enda í kirkjunni .......... eða eins og við höfum nýlega heyrt: útvarpsmessan kl 18 í Dómkirkjunni eða árinu lokið kl 24 á gamlársdag. Í þetta sinn er nýja árið merkilegt fyrir þær sakir að 60 ár eru liðin síðan við fæddumst og það verður því að kallast "stórmerkilegt" ár!  Okkur finnst mismunandi hversu hratt tíminn hefur liðið, líklega f því viðmiðin eru ólík. Ég man eftir því þegar ég stóð fyrir utan Barnaskólann okkar haustið 1970 og beið eftir pabba, sem var að koma af fundi með Jóni Baldvini og sagði að þessi Menntaskóli tæki að minnsta kosti 4 ár. Glætan - 4 ár til viðbótar við öll hin árin - ég kikknaði í hnjánum og var ekki viss um að ég nennti að labba aftur heim. Þessi tími leið síðan eins og annar tími og allt í einu stóðum við í myndatöku út í Blómagarði og strákarnir flestir með hár niður á herðar. "Við" fórum einnig í Iðn- og tækniskólann, en ég veit ekki hvar sú myndataka fór fram. Ég held ég geti staðhæft að um þetta leiti hafi flest okkar fluttst úr "föðurhúsum" til Reykjavíkur og byrjað enn eitt tímabilið .......
     Við könnumst öll við það "hvað allt breytist", þó við förum að heiman bara í nokkra daga. Viðbrögð okkar við breytingunni eru misjöfn allt frá því að láta breytinguna fara óáreitta gegnum hugann upp í að tjá sig með háreistum yfir því að "hér hafa hreinlega verið unnin skemmdarverk"! Við þekkjum eflaust flest til einhverra sem hreinlega neita að koma aftur til Ísafjarðar af því að bærinn hefur breyst svo mikið frá að þau ólust þar upp eða eða búið sé að skemma lögun Eyrarinnar frá því sem hún var í upphafi. Ég er sannfærður um að í slíkum tilvikum er eitthvað annað að og skuldinni því skellt á þessa náttúrulegu hluti sem tilheyra "tímans tönn"!. 
    Við erum hins vegar svo heppin að eiga 1954 rætur sem ekki láta bifast þrátt fyrir 60 ár í blíðu og stríðu. Þegar ég fer vestur, þá er alltaf stoppað í Ögurnesinu og á Litlabæ, þar sem amma og afi áttu heima, labbað gegnum Tangagötuna og Hrannargötuna þar sem þau áttu heima síðustu árin og upp Hafnarstrætið þar sem "bæjarkarlarnir" voru alltaf á sínum stað þar til þeir fóru einnig til "sinna heima". Þau okkar sem voru á síðast hittingi heima og löbbuðu gegnum nýju grunnskólabygginguna muna vel eftir þeim tilfinningum sem bæði komu fram í hugann og var einnig lýst í orðum þegar við settumst í gömlu skólastofurnar okkar í Barnaskólanum. Þarna komu fram raddir sem aldrei mega hljóðna ......
    Þess vegna er svo mikilvægt að við höldum áfram að heyrast, hittast og rifjum upp liðinn tíma sem bara verður lengri með árunum. Ég hef áður minnst á nauðsyn þess að segja líka öðrum frá þessum liðna tíma, hvort sem það eru vinir, makar, börn eða barnabörn. Sumir kannast við að hafa átt svipaða æsku og uppvöxt, en oftar en ekki eigum við vinninginn. Ég man hvað það snart mig þegar ég var kyrrsettur af einu barnabarninu mínu á göngu gegnum Kaupfélagsplanið, því hún þurfti að klifra upp í grindina sem þar er. Hún var snögg upp á efsta stallinn og hrópaði þaðan sigri hrósandi: "afi. ég sé fjallið þitt"! Það er í eina skitpið sem ég hef óskað þess að María væri eins lengi og hún vildi inn í búðinni ......... :))
    Kæru skólasystkin. Klukkurnar hafa hringt og nú er gengið í garð sextugasta aldursár okkar. Eins og þið sem hafið lesið einn og einn pistil hafið rekið ykkur á, þá hef ég aldrei minnst á hraða tímans, því það er tilfinning hvers og eins okkar. Ég þreytist hins vegar seint á því að rifja upp tímann okkar og hvað við höfum aðhafst bæði sundur og saman, því það endurfæðir okkur og nærir fyrir framtíðina. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það sé misjafnlega erfitt að rifja upp liðinn tíma og atvik sem varpa ljósi á bæði gleði og annað minna skemmtilegt. Ég tel samt að við höfum öll eitthvað jákvætt fram að færa sem vert er að minnast og segja hvert öðru og öðrum frá. Ég skora því á eitt og sérhvert okkar að gera allt til þess að komast á hittinginn okkar heima á Ísafirði í haust til að gera liðinn tíma og þá stund eftirminnilega, því raddir okkar mega aldrei hljóðna ...........

Orðum mínum til stuðnings í dag ætla ég að vitna í kvæði Guðmundar Böðvarssonar, "Raddir sem aldrei hljóðna":

Svo hljótt þaut mín jörð yfir himinsins naflausu vegi,
að hjarta mitt fann ekki mismun á nóttu og degi,
í feimninni þrá, sem endalaust bíður og bíður.
Hann blekkti mig, tíminn, ég vissi ekki, hvernig hann líður.

Og svo flaug hann á burt með mitt vor yfir heiðar og hlíðar,
með höll mína, tign mína og ríki, - ég vissi það síðar,
með hið fegursta og besta, sem aðeins af afspurn ég þekki.
 - Og ég átti það, átti það allt, en ég vissi það ekki.

Nú undrast ég það, þar sem einn ég í skugganum vaki,
að mín æska er liðin, er horfin, og langt mér að baki,
á einfaldan hátt, ein og auðfarin spölur á vegi,
og þó undrast ég mest, að ég gekk þar, og vissi það eigi.

07.12.2013 11:23

Á aðventu .............

Kæru skólasystkin!

Í síðastliðnum mánuði hefur margt borið við í landinu okkar. Sumt þekkjum við og hlustum á það "með öðru eyranu" í fréttamiðlunum; annað er nýtt og bregður okkur þá mismikið í brún. Víð grínumst oft með það á spítalanum að ef eitthvað skrítið er til eða eitthvað einkennilegt kemur uppá, þá verður það á Íslandi. Það er samt sérkennilegt hvernig þessar svokölluðu uppákomur lenda í umræðunni. Í heilt ár er búið að ræða og rífast yfir hvernig beri að leysa skuldavanda heimilanna. Dag einn var lausnin svo birt, en umræðan varð engin. Í jafnlagan tíma er búið að ræða og rífast yfir fjárhagsvanda spítalans sem endaði með því að forstjórinn sagði af sér við birtingu fjárlaga. Í fyrradag komu 3.5 milljarðar til lausnar án þess að ein rödd um þakklæti eða ein augabrún hækkaði til að fagna. Þurfum við virkilega að skjóta fólk til að vekja athygli á þeim vanda sem þjóð okkar eru komin í?
            Aðrir hlutir okkur nær hefur verið umræða um komandi 60 ára afmæli okkar á næsta ári. Það hefur ótrúlega lítið komið inn af tillögum að framkvæmd slíks viðburðar - kannski er hann bara ekki virði meiri umræðu eða vandkvæða. Engu að síður er þetta viðburður sem okkur ber að fagna okkar hátt. Einhver okkar vill eflaust fagna heima hjá sér og á sínum forsendum og er í raun ekkert við því að sakast. Hópurinn okkar er þó betur þekktur af því að sjást og heyrast á heimavelli. Stóri munurinn á okkur og þjóðinni er nefnilega sá að við berjumst á ögurstund, við gleðjumst á sigurstund og við syrgjum þegar í okkur er höggið. Þannig er 1954 hópurinn okkar öðruvísi en "almenningurinn" og mér (og fleirum) finnst aðdáunarverð sú eljusemi og samheldni sem í okkur ríkir. Ég hefur áður sagt, "þetta eru genin" og staðreyndin er sú (sem betur fer), að þeim verður ekki breytt!
            Allavega er komin tillaga frá stjórn okkar að við hringjum til fagnaðar þann 6. og 7. september 2014 og nú sem fyrr er bara að mála, hringa inn eða rispa á dagatalið og gera allar þær ráðstafanir sem þarf til að koma saman þessa helgi. Það er því ekki seinna vænna en núna að láta hugann reika um heimahagana til að rifja þann tíma sem við áttum þar saman. Það má eflaust finna ýmsu til ama og falla í gryfju moldvörpunnar, en núna er blásið til fagnaðar og þá tökum við fram lúðra og spil en ekki sverð og skjöld. Mig langar sérstaklega til að við festum á blað skemmtilegar sögur eða frásagnir og myndir sem við tökum með okkur til opinberunar og til að setja síðar inn á stað sem okkur öllum verður aðgengilegur á elliheimilinu.

Í dag er aðventan. Á Vísindavef Háskólans stendur að aðventan sé annað heiti á jólaföstu. Hún hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur því í fjórar vikur. Orðið aðventa hefur verið notað í málinu að minnsta kosti frá því á 14. öld og er tökuorð úr latínu adventus í merkingunni 'tilkoma'. Að baki liggur latneska sögnin advenio "ég kem til" sem leidd er af latnesku sögninni venio "ég kem" með forskeytinu ad-. Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í seðlasafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur til dæmis ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir:

Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna. (1992:31)

Kæru skólasystkin. Hjá okkur einkennist þessi tími af undirbúningi fyrir skólalok, klár ógerða hluti frá árinu, skreytingar, jólakortaskrif og jólapakkasendingar og ekki að gleyma öllum jólamatnum. Ég vil því biðja okkur að þrátt fyrir mikið annríki hugsa vel til hvers annars og velta fram hugljúfum minningum liðinna ára sem gaman verður að deila með hvert öðru á hittingnum í haust.

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Steingerðar Guðmundsdóttur, Á aðventu. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar Gleðilegra jóla og friðar með ósk um farsælt nýtt ár 2014.

Í skammdegismyrkri

þá skuggar lengjast

er skinið frá birtunni næst

ber við himinn hæst.

 

Hans fótatak nálgast

þú finnur blæinn

af Frelsarans helgiró -

hann veitir þér vansælum fró.

 

Við dyrastaf hljóður

hann dvelur - og sjá

þá dagar í myrkum rann

hann erindi á við hvern mann.

 

Þinn hugur kyrrist

þitt hjarta skynjar

að hógværðin býr honum stað

þar sest hann sjálfur að.

 

Og jólin verði

í vitund þinni

að vermandi kærleiks yl

sem berðu bölheima til.

03.11.2013 08:02

Fegursti dagurinn ........

Kæru skólasystkin!

Það má með sanni segja að "fljótt skipast veður í lofti" á landinu okkar. Það á ekki bara við um sjálft veðrið eins og orðtakið ber með sér heldur einnig hvers kyns kringumstæður. Í síðasta mánuði dæstum við yfir fjárlögunum, sem var svo sem ekkert nýtt, en viðbrögðin urðu mismikil og misgóð, eftir því hver átti í hlut; hjá mér t.d. yfirgaf skipstjórinn skútuna. Fyrsta dagsverk nýja skipstjórans, sem er geðgóður og kann greinilega tökin á smábörnum, var að gefa ungviðinu að borða. Viðbrögðin létu ekki standa á sér - þau hættu að gráta yfir framtíð sinni og tóku að hlaupa á ný; þetta var fagur dagur .....
    Það fer ekki framhjá neinum að við eigum heimsmet á flestum sviðum; eitt af þeim er útrýming blessuðu rjúpunnar. Björgunaraðgerðir beinast að fækkun veiðidaga. Enn og aftur dæsum við yfir því að dagarnir séu fyrirfram ákveðnir, því þar sem við búum á Íslandi, skipast fljótt veður í lofti, þannig að ekki verði hundi út sigandi. Þannig fór og fyrir fyrsta veiðitímanum að ekki sá út úr augum fyrir stormi og snjókomu. Engu að síður héldu landsmenn inn til dala og upp til fjalla í veiðivon sem er okkur í brjóst borin. Þó segja mætti fyrirfram að heimkoman yrði létt í hendi, þá var samveran og samhugurinn í verki ekki síður sælli, þannig að þegar hugsað er tilbaka, þá var þetta fagur dagur ......
    Í raun getum við ekki séð fyrir um hvernig hver dagur eða tíminn framundan kemur til með að vera. Þegar við erum ung, þá ýmist stefnum við þangað sem erfðaefnið segir til um eða mögulega sveigjum þar sem mótun á því gefur möguleika til slíks. Á þessum tíma eru ekki áhyggjur af tíma, hann er til þess að njóta, hvort heldur við erum vakandi eða sofandi. Ég veit ekki hvort það er í erfðaefninu eða hormónunum, en þá er það oftar en ekki þannig að "maður er manns gaman" og er hér átt við félagsveruna í okkur, þ.e. að vera frekar saman heldur en sundur eða vera ekki ein-manna. 
    Hér hefur okkar nánasta umhverfi örugglega mikið að segja, en ekki síður erfðirnar. Ég efast ekki um að hvert og eitt okkar geti fundið samlíkingu og mögullega sannfæringu á þessum málum úr sínu eigin umhverfi. Þetta sé ég sjálfur bæði heima og að heiman. Mér finns t.d. bæði spennandi og skemmtilegt að sjá hvað nemar (lækna-, hjúkrunar- og sjúkraþjálfara) sem ég er að kenna geta verið ólíkir frá ári til árs; eitt árið er samheldnin slík að það er eins og ég sé með risa systkinahóp eða að hóparnir eru sundurleitir, hver í sínu horni eða nokkrir saman.
    Hver man ekki frá tímanum þegar við vorum að byrja saman - já algjörlega í fyrsta sinn. Það voru nokkrar einmanna sálir, nokkur pör, nokkrir hópar ..........; það eina sem við áttum í raun sameiginlegt var fæðingarárið 1954 og svo kannski skólinn. Þó svo ég sé ekki að hengja mig algjörlega í erfðaefnið, þá vil ég halda því fram að ártalið og þar með árgangurinn skipti miklu hér máli eins og við sjáum (og heyrum) viðar þegar talað er um veður, uppskeru, vín, bíla, byssur, málningu ...... og svo mætti lengi telja. Þessu til staðfestingar finns mér ég eiga alla samleið með 1954 árganginum og enga með menntaskólanum, en þar voru nefnilega ekki allir fæddir á sama ári þó við "gengum aftur" í sama skólann eða barnaskólann :)). 
    Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan vorið 1960 að við hittumst öll í fyrsta sinn. Vízt var þetta gaman - var það ekki ? Foreldrar okkar höfðu greinilega komið við í Bókhlöðunni og keypt hliðartöskur með Andrésar Önd mynd - einnig áttum við pennaveski í stíl eða pennastokk og svo vorum við með nesti :)) Sumir foreldrar komu með til að byrja með - aðrir létu á reyna hvernig heimakennslan skilaði sér. Allavega höfðum við ólíka sín á þessum fyrstu stundum í skóla lífisins; mögulega var þessi dagur fegursti dagurinn í okkar hjörtum á meðan að fegursti dagur hjá foreldrum okkar var þegar við fæddumst ............ !

Kæru skólasystkin. Ég er enn og aftur að rifja upp og róta í tilveru okkar. Tilgangurinn er að ég tel hana vera mikilvæga í minningunni og ástæðan er að ég vil að við hjálpumst að því að njóta hennar saman. Ég vil enn og aftur hvetja okkur til að hrista upp í huganum og taka til í skúffunum, því ég veit að einhver okkar eiga ennþá Andrésar Andar töskurnar með veski og blýanti í og þegar betur er að gáð nokkra sneppla með ástarkveðjum og ýmsu öðru skemmtilegu .......... Orðum mínum til stuðnings í dag ætla ég því að vitna í kvæði Jóhanns Hjálmarssonar, "Fegursti dagurinn".

Dagurinn sem hann fæddist
var fegursti dagur ársins.
Heiður himinn og stigi frá sólinni
niður á göturnar.

Frost, en heitt brjóstið
og fljúgandi hugurinn
fundu það ekki
í rauðu skini dagins.

Það var dagurinn sem hann fæddist,
sonurinn, fyrsta barnið.
Á þessari stundu voru tvær litlar hendur
að þreifa sig áfram í birtunni fyrir utan.

Fegursti dagur ársins
engum öðrum dögum líkur
gekk upp og niður stigann
milli sólarinnar og strætanna.

05.10.2013 09:47

Lífsstríð, lífsfró og (endur)minningar .....

Kæru skólasystkin!

Mikið var gaman að fá tvö "komment" (athugasemdir) síðast; annars vegar frá Reykjanesbæ og hins vegar frá Svíþjóð - það þýðir í raun að hægt sé að lesa síðuna víðar en á Höfuðborgarsvæðinu :)) Já - árin okkar líða áfram eins og hjá öðrum; einhver sagði, "bíddu aðeins", en það er vízt það eina sem ekki er hægt að gera nema stöðva tímann. Sumir nefna sextugsaldurinn sem eitthvað hræðilegt, en mér finnst fleiri staðfesta ágæti hans. Því er samt ekki að neita að úthaldið og þolinmæðin hafa breyzt - en ég veit ekki alveg hvernig á að breðast við skilaboðunum sem mér finnst ekki fara saman og það er að: æfa meira til að styrkja úthaldið og sitja á mér til að stilla skapið.  Allavega var notalegt að geta hlaupið út í náttúruna í vikunni þegar fjárlögin voru birt í stað þess að sitja undir þeim niðurskurði sem talinn var upp. Það er ljóst að enn þurfa landsmenn að herða ólina og við eigum því miður eftir að horfa upp á meiri samdrátt í "kerfinu" og áframhaldandi flótta fólks til útlanda, m.a. til Canada. 

Við sem ætlum að vera eftir þurfum að huga að skipulagningu 6tugs hátíðar næsta árs og ég er sammála því að slíkur viðburður á bara að vera "heima, í faðmi fjalla blárra". Við þurfum því öll sem eitt að leggja huga og hönd að verki og koma með tillögur að því hvernig bezt verði að staðið. Ég tel rétt að fram komi tillögur og gagntillögur að dagskrá og að við sem ekki erum á staðnum fáum einnig að leggja hönd á plóg. Það er því enn einu sinni kominn tími til að hvert og eitt okkar drepi niður penna í vetur til að festa á blað sögur og frásagnir sem detta upp í hugann og vert og skylt er að minnast og ekki sízt setja inn á síðuna okkar til upprifjunar síðar meir - það sama á við um myndir sem gætu þurft að vinnast á nútímaform; með öðrum orðum nú skal allt upp úr skúffunum, bæði úr herbergjum og af háalofti.

Ég heyri oftar en ekki að 1954 hópurinn okkar hljóti að vera náinn miðað við það hvernig við ræðum saman og skiptumst á upplýsingum og skilaboðum gegnum heimasíðuna. Ég staðfesti með stolti að svo sé og hafi alltaf verið. Ég hlakka því óendanlega mikið til að heyra og sjá hvað kemur upp úr skúffunum þegar líður tekur á árið. Ég veit líka að mörgum finnst vont að vera hafa sig í frammi á svo opinberan hátt sem við gerum. Ég get þá staðfest að það er bara vont fyrst - svo venst það. Allavega er ég sannfærður um að þessi leið haldi okkur saman og stappi í okkur stálinu þegar við þurfum á slíku að halda. Ég veit að mörg okkar eru einnig á "Facinu", þar sem einnig er hægt að tjá sig og draga fram myndir. Einhvern veginn hefur það samt ekki náð því flugi sem gert var ráð fyrir í upphafi og þar verður samheldni okkar minni í mergðinni. Ég ætla því enn og aftur að hvetja okkur til dáða á komandi vetri með tilhlökkun í huga yfir komandi afmælishátið að vori.

Kæru skólasystkin. Orðum mínum til stuðnings ætla ég að þessu sinni að vitna í kvæði Matthíasar Jochumssonar, Lífsstríð og lífsfró. Þetta er svolitið þungt í lestri en ég tel að skilaboðin höfði inn í kringumstæður okkar.

Ég leitaði´ um fold og sveif yfir sæ,
því að sál mín var hungruð í brauð,
en ég gat ekki neins staðar gulli því náð,
sem oss gefur þann lifandi auð.

Og svo varð ég uppgefinn, sál mín svo sjúk,
að hún sá ekki líkn eða fró,
því allt traust á mér sjáflum með trúnni var burt,
og af tápinu sorglega dró.

En þá var það eitt sinn á ólundarstund,
að ég eigraði dapur á sveim;
og ég reikaði hljóður um víðlendisvang,
því ég vildi´ ekki í tómleikann heim.

Þá heyrðist mér rétt eins og hvíslaði rödd,
svo að hjarta mitt greiðara sló:
"Ef þú horfir með ólund á himin og jörð,
þá hlítur þú aldregi ró"!

Þá leit ég í kringum mig, loftið var allt
ein logandi kveldroðaglóð,
meðan sólin mér heyrðist við sæflötinn yst
vera´ að syngja mér óminnisljóð.

Og fuglarnir, lyngið og lækir og grjót
og lömbin og fjöllin og hjarn
fékk aftur sinn heilaga samelskusvip,
og ég sjálfur? - Ég lék eins og barn!

14.09.2013 08:46

Mér dvaldist of lengi .........

Kæru skólasystkin!

Haustið er komið  - allavega "í veðrinu"! Bíddu við - hvenær kom þá sumarið? Það er "þungt" í fólki, hvar sem stungið er niður. Það er ýmist verið að bíða eftir bata í efnahags- og atvinnumálum eða hvernig "óstandið" endar inn á spítalanum. Það jákvæðasta sem fram hefur komið síðustu daga er frá íslenska fótboltanum og í Fréttablaðinu í morgun segir sænski þjálfarinn: "Ég dáist að viðhorfi Íslendinga - þeir eru vanir að taka ábyrgð í stað þess að bíða eftir hjálp"! En er þetta ekki gamla viðhorfið okkar - hefði hann sagt þetta ef við hefðum ekki unnið? Er hann kannski að lýsa veröld fótboltamannsins sem takmarkast af stærð vallarins og bóndans sem takmarkast af stærð jarðar sinnar og flugfélagsins sem takmarkast af stærð Íslands. Misstum við kannski stjórn á hlutunum við allar sameiningarnar og við það að reyna blanda Íslandi við umheiminn. Er vandamálið kannski það að búið sé að kveða niður eða kæfa frumkvæði og forystu einstaklingins í hítinnni? Þegar ég spyr í kringum mig: "af hverju siturðu" er svarið "ég fæ ekkert meira fyrir að standa" eða "eigum við ekki að drífa í þessu", er svarið "til hvers - vandamálið fer ekki, því enginn annar vill taka á því"? Hér eru hlutirnir greinilega ekki eins og þeir ættu að vera - en af hverju ættu þeir að vera öðruvísi - "ég fæ ekkert meira fyrir að hlaupa á eftir þér"! Hvað er eiginlega að - jú, það er umbunin eða uppskeran af verkunum sem er horfin - og það slekkur einnig allt framtak og vinnugleði sem við erum annars almennt þekkt fyrir. Viðbrögð okkar hafa verið eins og forðum að við leitum hreinlega "annarra miða", bæði nær og fjær. Vegna smæðar okkar eru nærmiðin þétt skipuð svo næstu mið verða því gjarnan annar kostur - ekki sízt ef fók hefur verið þar áður og þekkir þau af góðu einu. Ástandið minnir óneitanlega á landflóttann mikla til Canada ..................

En af nógu er að taka "heimafyrir", það er þeirra sem ekki ætla til Canada :)) Á þessum tíma eru það haustverkin. Með tímans tönn hefur dregið úr sveitatengdum skyldum eins og kartöflurækt, berjatínslu og sláturgerð og meiri áhersla orðið á undirbúning heimilis fyrir veturinn fyrir skólagöngu og félagsstörf. Já - það þýðir ekki lengur að bara mæta; það þarf að skipa í nefndir og skilgreina hvað hver og einn á að gera og ekki gera og  gefa það út fyrir ákveðin tímamörk á bæði skriflegu og rafrænu formi. Þannig erum við að færast hægt og bítandi inn í hinn rafræna heim upplýsinga sem smám saman gerir bókformið ónauðsynlegt. Þetta hefur mögulega áhrif á víðsýni okkar og þekkingu, en ekki kunnáttu. Þannig á námsfólk í dag mjög greiðan aðgang að öllum þeim fróðleik sem þau þarfnast en minnið nær ekki að halda öllu til haga þegar á hólminn er komið; þá rekur í vörðurnar og vantar "gúgglið"! Sama er upp á teningnum þegar þarf að skrifa og það hratt - bæði sú kunnátta og þjálfun fer forgörðum með bæði tölvunum og sérstaklega "pöddunum", þannig að tjáningarformið sem eftir situr verður tungan eða frumtjáningin.

Hvort heldur er að fólk flyst burt eða hættir að geta skrifað, þá er búið að sjá fyrir hvorutveggja vandamálið með "skæpinu". Í dag er skæpið bara á "on" og "þá erum við alltaf eins og saman"! Þarna er greinilega kjörið tækifæri fyrir okkur að alltaf vera saman hvort sem við erum í vinnunni, heima eða á elliheimilinu.  Það er kannski eins gott að tækið sé í gangi aðeins fyrir líðandi stund og ekki í stöðugri upptöku, því það væri ekki gott fyrir síðari tíma. Engu að síður tel ég þetta ekki koma í veg fyrir að við hittumst líka, því enn eru staðhæfingarnar úr Hávamálum í fulli gildi varðandi: "maður er manns gaman"!

Já - kæru skólasystkin. Mér dvaldist kannski of lengi við haustverkin, en þau voru hreinlega þyngri og umfangsmeiri en áður. Nú er spennanndi vetur í aðsigi og við tökum honum fagnandi. Það er gott að við vitum af hvert öðru og leitum stöðuglega styrks í trúnni eins og biskupinn hún Agnes skólasystir okkar er stöðuglega að brýna okkur á að gera. Ég bið ykkur einnig að hugleiða alvarlega hitting og það kæmi mér ekki á óvart að við næðum að skíra hann í tilefni einhvers eftirminnilegs úr fortíð okkar.

Ég ætla að ljúka þessum pistli með tilvísan í kvæði Snorra Hjartarsonar: "Mér dvaldist of lengi"!

Mér dvaldist of lengi það dimmir af nótt
haustkaldri nótt á heiði.

Ég finn lynggróna kvos við lækjardrag
og les saman sprek í eldinn

barnsmá og hvít og brotgjörn sprek.
Sjá logarnir leika við strauminn

rísa úr strengnum með rödd hans og glit.
Ó mannsbarn á myrkri heiði

sem villist í dimmmunni vitjaðu mín
vermdu þig snöggvast við eldinn

fylgdu svo læknum leiðina heim.

01.06.2013 12:10

"Trú, von og kærleikur ....... "

Kæru skólasystkin!

Í dag er allt að gerast; útskriftir úr skólum landsins, ný ríkisstjórn í mótun og Sjómannadagurinn. Það eru því víða veislur og samankomur fólks með tilheyrandi umræðum um lífsins gang og framtíðarhorfur, heilræðavísur þeirra sem eldri eru og afrekssögur og ýmisskonar frásagnir í dagblöðunum.

Ég var boðinn í útskriftarveislu í gær. Að sjálfsögðu fagna allir yfir ánægjulegum áföngum í námi og á lífsleiðinni, en eitt leiðir af öðru; hvað svo? Í einu horninu var spáð í hvernig ríkisstjórninni takist nú að leysa úr öllum vandamálum síðstu stjórnar og eins og alltaf eru það fjámálin, eða "fjárhagsvandi heimilanna", eins og það er kallað í dag. Eins og einkennir íslenska pólitík var mikill hiti í þessu horni, svo ég reikaði áfram til mér meira áhugaverðari umræðu. Þá var togað í jakkann minn af eldri manni sem hafði setið mjög virðulegur og hljóður út við gluggan frá upphafi. Hann réttir mér hönd sína og heilsar þéttingsfast - sæll, Björn heiti ég - hver ert þú? Ég heiti Halldór og er frá Ísafirði. Ég er frá Hlíð í Grafningnum og var verkstjóri við virkjanagerð í Sogninu, en er hættur og bý nú í Reykjavík ......

Í framhaldinu fékk ég að heyra bæði frá tímanum hans sem verkstjóri í Sogninu og sem háseti á síðutogaranum Mars, með Karkúsi Guðmyndssyni. Andlit hans ljómaði yfir frasögninnin "hvernig honum hafði tekist til að koma mörgum drengnum til manns". Á hverju vori var honum sendur hópur stráka til sumarvinnu og voru þeir bæði misjafnir í laginu og mistilbúnir til að fara að vinna með ýmisskonar verkfærum. Hann sagði það hafa verið ásetningur sinn að taka öllum jafnvel frá upphafi með þéttingsföstu handtaki og tjáð þeim að allt sem þeir gerðu, skyldu þeir vinna af alúð og með góðri samvisku. Ekki voru nú allir tilbúnir í slíka undirgefni í fyrstu, en að sumri loknu hafi hann undantekningalaust fengið þakkir fyrir að vera heiðarlegur og réttlátur í samskiptum. Þá sagðist hann ekki vera í vafa um að framkoma hans hafi skilað sér til margra þessara drengja þegar reyndi á þá við hin ýmsu störf sem þeir tókust á hendur síðar á ævinni.

Þegar heim kom, fletti ég fram upplýsingum um þennan heiðursmann. Þar mátti finna í minningum um Guðmund föður hans: "Handtak hans var ákveðið og þétt og lýsti vel persónuleikanum. Hann var stefnufastur og hringlandi honum fjarri. Hann naut ætið trausts þar sem hann var .....". Í bók Gunnars Hersveins, Gæfuspor, segir um uppeldi: "Einstaklingur þarf að tileinka sér ýmsar dyggðir til að honum farnist vel . Þar má nefna hófsemi, visku og réttlæti ..... sem Forngrikkir nefndu höfuðdyggðir og sem líða ekki svo glatt undir lok, hvorki í uppeldi né öðrum mannlegum samskiptum. Þarna sýndi það sig hvernig þéttingsfast handtak þessara feðga hafði orðið sem dyggð tveggja kynslóða og mjög líklega skilað sér lengra.

Það sem situr eftir í huga mér eru hugleiðingar um handtakið og mannlegu samskiptin. Handtak milli tveggja einstaklinga sem er annars vegar staðfesting á kurteisi og hins vegar staðfesting á samkomulagi, sbr "gentleman´s agreement"! Í dag er handabands staðfesting á samkomulagi orðin rafræn, sbr. rafræna undirskrift og PIN númer í öllu sem samþykkja þarf, annars er það ekki gilt. Það sem eftir lifir er þá staðfestingin á kurteisi í því skyni að staðfesta að viðkomandi sé velkominn eða að það sé gaman að sjá hann. Slík staðfesting er þó einnig á útleið vegna hættunar á dreifingu á sýklum manna í milli. Því verður allt algengar að notast við hugtökin "hæ og bæ", heldur en handtak með orðunum "komdu sæll" og "vertu blessaður". Þar með er endanlega höggið á dyggðir og tryggð sem felst í "mannlegum" samskiptum og við taka "rafræn" samskipti.

Ég hef "því miður"?? orðið þessa áskynja að undanförnu bæði í samskiptum fólks almennt og innan háskólans. Í sjúkdómsgreiningum er viðtal og skoðun á undanhaldi á meðan að rannsóknum og flóknum rannsóknatækjum fjölgar. Í kennslunni eru samskipti við nemendur á undanhaldi á meðan að frásagnir gegnum myndbönd og rafrænar uppflettingar og tilvitnanir ryðja sér rúms. Mögulega er þetta bein afleiðing eðlilegrar þróunar á öld tölvuvæðingar og að í stað þess að vera aðfinnslusamur eigum við að taka þessum "frábæru" og "eðlilegu" hlutum fagnandi. Allavega virðast flókin mál og verkefni leysast betur í þessum nýja heimi og jákvæðni þar í ofanálag léttir lundina. 

Kæru skólasystkin. Þó við tökum þátt í þessari "eðlilegu" þróun lífsins, hvet ég ykkur til áframhaldandi hittings, handabanda og faðmlaga og passið ykkur að missa ekki lífrænu sjónina og tengslin hvert við annað, fjölskylduna, vini og vandamenn (sbr. orðtakið: "að eignast vin tekur andartak, .... að vera vinur tekur alla ævi!") Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í ljóð Kristjönu E. Guðmundsdóttur: "Trú, von og kærleikur".

Eins og stjarnan
lýsir í myrku
himinhvolfinu
lýsir trúin í myrkri angistar okkar.

Eins og fræið
liggur í moldinni
og vaknar að vori
lifir vonin í djúpi sálar okkar.

Eins og glóðin
lifir í öskunni
og kveikir bálið
vermir kærleikurinn hjörtu okkar.

Missum ekki trúna
vonina og
kærleikann
leyfum þeim að lýsa upp líf okkar.

05.05.2013 07:09

"Tal við spóa........."

Kæru skólasystkin!

Til hamingju með nýliðið 45 ára fermingarafmælið okkar; tíminn líður og veðrið er eins og það er. Ég man eftir þessum 28. apríl eins og hann hafi verið í gær. Það gekk flensa í bænum og fólk misjafnlega vel á sig komið til kirkjuferðar, en séra Sigurður gaf engan afslátt á því að við þyrftum að mæta til brauðsbrotningar; "þið hressist bara á því"! Rósa kastaði upp í lúkurnar á pabba sínum, en ég náði að hlaupa út - síðan var gengið til altaris og fermingin staðfest með víni og brauði. Það urðu allir hressari á eftir og hvergi slegið af tilheyrandi veisluhöldum. Veður var kallt; hvasst, frost og snjór. Við tók hefðbundið upplestrarfrí og próf .........

Undanfarin ár höfum við vanist því að sumarið komi fyrr (í apríl) með hlýindi og sól. Að sama skapi hefur veturinn verið snjóléttari og færri tækifæri til skíðaiðkunar, sérstaklega svig og bretti, sem í dag eru algjörlega háð því hvort lyfta sé í gangi eða ekki. Það kom því flestum skemmtilega á óvart hvað Ísafjörður skartaði bæði miklum snjó og fallegu veðri um páskana. Dalirnir "okkar" voru til þvílíkrar fyrirmyndar hvað varðar alla aðstöðu til útiveru, en það merkilega gerðist að aðeins nokkrir mættu á svæðið til að njóta. Fyrsti morguninn minn á svæðinu fór í að "taka út" aðstæður og njóta þessarar dýrðar sem snjórinn, sólin og lognið sköpuðu í faðmi þessara vestfirsku fjalla. Annan morguninn tók ég snemma og var mættur upp úr 10, en þá sagði Steini Magnfreðs stjóri á efstu lyftunni: "Halldór, þú hefðir átt að vera hér í morgun, þegar sólin læddist upp fyrir fjallsbrúnina og skreið niður dalinn - þá var líka logn". Vá, hvað ég var smá spældur að hafa verið sofandi í slíkri dýrð. Þriðja morguninn var ég mættur snemma og fékk þá að upplifa það sem ég svaf af mér daginn áður, en Steini hafði greinilega fengið nóg, því hann lá fram á kaffiborðið og var greinilega í öðrum heimi en þessum. Þegar líða fór að hádegi og ennþá fámennt á svæðinu spurði ég Steina, hvar allt fólkið væri? Steini hvessti á mig augun eins og ég hefði gert eitthvað af mér og sagði mjög alvarlega: "Halldór, það er fast í internetinu"!

Þessi setning "fast í internetinu" skaut mig í hjartastað. Á leiðinni upp í lyftunni sá ég fyrir mér fólk fast í neti og berjast um eins og seli í fiskineti ....... Þetta var mjög truflandi, sérstaklega af því að ég sá ekkert fólk á Dalnum og Steini var mjög sannfærandi. Þegar ég kom heim, þá sá ég að Steini hafði rétt fyrir sér, því fólk fór beint í símann sinn, Paddinn eða í tölvuna til að taka púlsinn á því sem gerst hafði frá því að við fórum fram eftir um morguninn! Ég var svo smám saman leiðréttur og bent á að dagarnir eins og þeir væru núna hefðu ekki verið til staðar í mörg ár og á þessum tíma hafi fólk hreinlega fundið sér aðrar tómstundir en að stunda skíði ........ Þannig væri nú til staðar kynslóð sem ætti engar skíðagræjur, heldur bara tölvur og ýmislegt annað sér til skemmtunar og viðurværis.

Það sem greinilega hafði ekki brugðist í tímans rás og óháð veðri og vindum er tónlistarlífið á Ísafirði. Annars vegar er þar afsprengi frá Tónlistaskólanum með áframhaldandi þróun einleikara og kóra: Þar ber hæst frænkurnar, okkar Margréti Gunnars og (okkar Einars) Sunna Karen sem hvergi láta deigan síga með söng og undirleik; og hins vegar er það hann Mugison sem bara skátengist okkur, en er að engu síður orðinn og búinn að gera Ísafjörð heimsfrægan fyrir sína páska uppákomu. En þrátt fyrir allar þessar skemmtistundir er ótrúlega stutt í gráma hversdagsleikans, því strax í kjölfar páskanna átti sumarið að koma með hækkandi sól og blíðviðri, sem algjörlega stendur á sér eins og myndun nýrrar ríkisstjórnar. Á meðan að við bíðum, þá berjumst við bara fyrir endurbótum í samgöngum með því að senda vöruflutningana aftur út á haf og bora fleiri göt í fjöllin okkar til að sleppa við að aka um alla þessa fallegu firði.

Já; þrátt fyrir kuldann, stefnir hugur Ísfirðinga hátt ef marka má fréttir úr fjölmiðlum þaðan. Ég fæ ekki betur séð en að þar sé endurreisn í gangi bæði í huga og í verki. Við erum búin að fá nýjan bæjarstjóra sem er uppalinn á staðnum og flestur hnútum kunnugur og síðan er hvert sprotafyrirtækið á fætur öðru "að gera það gott" og að verða heimsfræg eins og eiginlega allt sem byrjar og verður til á Ísafirði.

Kæru skólasystkin. Þrátt fyrir kalda sumarbyrjun, þá vil ég hvetja ykkur til að minnast staðfastra róta ykkar og það trausta bjarg sem þær gefa ykkur inn í hvern dag lífs ykkar; minnist bara hvað það kom nú alltaf leiðinlegt veður eftir vorprófin, en svo kom loxins sumarið og spóinn  - þannig hafa þau alltaf komið aftur óháð "internetinu" .......  
Máli mínu til stuðnings í dag ætla ég að vitna í ljóð Jóhannesa úr Kötlum, "Tal við spóa", sem gæti hafa farið fram á Ísafirði.

Ég átti í morgun tal við spakan spóa,
sem spígsporaði um þýfðan sinuflóa
og var að flauta fjörugt ástarstef
og föndra við sitt langa og bogna nef.

Hann sagði, að hvergi væri betra að vera
né viturlegra hreiður sitt að gera
en hér á þessum hlýja og frjálsa stað,
og hjartanlega vall hann upp á það.

Ég grét af öfund, vildi verða spói
og vildi að landið yrði tómur flói,
og vildi elska og syngja í sinu þess,
 - þá sagði spóinn: Jæja, vertu bless!

29.03.2013 09:13

"Af hverju fer maður vestur ........ ?"

Kæru skólasystkin!

Af hverju fer maður vestur og af hverju fer maður suður? Þessum spurningum verður hver og einn að svara sjálfum sér, en almennt er talið að það sé lengra í aðra áttina! Ég og María fórum vestur fyrir páska með strákana og eina kærustu. Við fórum akandi til þess að kenna börnunum um staðhætti í Djúpinu og til þess að njóta þeirrar ásyndar sem þar ber fyrir augu, sérstaklega á góðviðrisdögum eins og við fengum. Á vesturleiðinni var dottið á myrkur sem gerði suðurleiðina enn þá meira spennandi og tilkomumeiri. Það er alltaf jafnótrúlegt hvað hægt er að forfæra baráttu fortíðarinnar til sigurvímu hvert sem augað lítur og hvað sem rætt er um. Það var af nógu að taka þar sem ættirnar komu að beggja vegna Djúpsins. Líflegar undirtektir strákanna örvaði mjög frásagnargleðina, en hemilinn hafði ég í baksýnisspeglinum þegar augu kærustunnar fóru að snúast í hringi. Það er alltaf jafnólýsanlegt að "detta inn" í Skutulsfjörðinn í þvílíku spegillogni að himinn og fjöll líta eins út hvort sem horft er til himins eða hafs.

Annars er ekkert jafn unaðslegt og að hitta og umgangast fjölskyldu og vini, sem er því miður alltof sjaldan. Það þarf orðið "tilefni" til allra slíkra athafna, þar sem dagatal og skipulag ræður orðið ríkjum yfir öllum tímasetningum; tilefnið "þarf að passa öllum"!. Þrátt fyrir háan meðalaldur í hópnum var "páskafrí í skólanum" samnefnari þess að hægt var að fara og svo þurfti einnig að "deila upp" álaginu. Það þarf ekki síður að sýna og segja frá þegar komið er "heim", bæði innanhúss sem utan; yfirgnæfandi fjöllin í bak og fyrir, skipin í höfninni, fólkið í bænum, uppgerðu húsin, bílarnir í götunni og veðrið.

Snemma morguns bárust hamarshögg og vélahljóð frá höfninni inn um stofugluggann - einnig þrastarsöngur. Vorið staðfestir komu sína með sólroða á fjallstindana - en það er ennþá mjög kallt úti á tröppum. Fréttaflutningur brestur á í batterísútvarpinu - alltaf jafn brjálað þarna í Reykjavík og svo kemur veðrið með góðu útliti fyrir daginn - allavega "á miðum og annesjum" allt í kring! Við drífum okkur á skíði "til þess að nýta daginn". Það er fátt um manninn á Tungudalnum, því það er "bara helgi" - ekki komnir páskar. "Það er eins og allir séu fastir í internetinu" sagði lyftuvörðurinn og dæsti; "ég ætla sko ekki að fá mér tölvu - þetta er skrímsli sem étur mann"! Ég greip í lyftustöngina og þeyttist upp brekkuna. Ég var lyftunni mjög þakklátur að toga mig burtu frá þessari "gífurlegu" yfirlýsingu og lyfta mér upp í sólina og sjá hvernig Ísafjörður og öll fellin (Sandvell, Miðfell, Búrfell og Kistufell) birtust hægt og bítandi í öllu sínu veldi - ekki var það síður að snúa sér við upp á endastöð og sjá alla heiðina blasa við með sína spegilglampandi ásjónu í sólinni.  

Fólk sigraðist á deginum með margvíslegum hætti; fóru aftur niður í löngum og hægum boga til að sólin skini jafnmikið á báðar kinnarnar, fóru svörtu brekkuna í einum rykk, fóru í Gilið á brettinu, fengu börnin með sér í áttina að Orustuhól með loforði um Prins Póló þegar þangað kæmi eða kakói þegar niður kæmi. Aðrir fóru gamla skíðaveginn upp á Seljalandsdal og gengu þar í mislöngu spori allt eftir því sem markmiðið hafði verið var sett fyrir daginn; þriðji hópurinn þeyttist á vélsleða upp um ósnertar fjallshlíðarnar og merkti sér þær með tilheyrandi krúsidúllum. Allavega var umræðuefnið ærið þegar komið var í heitapottinn í Víkinni með snæviþakinn Ernirinn gínandi yfir sér. Það sem vakti mann sérstaklega til umhugsunar var það mikla öryggi sem talið er að göngin veiti á sama tíma og fólk fjölmennir til allskyns útiveru á hinni stórhættulegu Óshlíð. Allavega voru allir sammála um að ekki væri eins gaman að "keyra út í Vík" eins og áður!

Þegar betur er að gáð, snýst lífið í bænum okkar ekki bara um útiveru og náttúruaðdáun, flug og fisk! Það er mikið verslunar-, iðnaðar og menningarlíf sem er innilokað í öllum húsunum niður í bæ; þetta verður maður ekki var við nema fara líka þangað. Fyrst verður fólk hugfangið af öllum nýuppgerðu húsunum og þegar inn er komið, hvað mikið er í gangi þar. Heitasta umræðan snerist eðlilega um páskana og eins og sagt er í dag hátíðina "Aldrei fór ég suður"! Þrátt fyrir að þetta sé mikill viðburður í bæjarlífinu, þá halda bæjarbúar alveg ró sinni og festu í daglegu amstri. Endurreisn Edinborgarhússins og Neðstakaupstaðar hefur tekist með undraverðum hætti.  Þar er alltaf mikið af fólki, sérstaklega ferðamönnum sem vilja kynnast okkur betur. Þó svo að þar sé allar heimsins upplýsingar að finna, mun ég alltaf sakna "Bæjarkarlanna" sem settu svip sinn á bæinn og vissu nákvæmlega um allt sem maður þurfti að vita hverju sinni.

Kæru skólasystkin! Það er alltaf margs að minnast; sumt gott, sumt vont. Tímann er ekki hægt að spara - aðeins hægt að nýta hann betur. Þá er mikilvægt að draga fram það góða og jákvæða úr átthögunum og miðla áfram til komandi kynslóða. Framundan eru ýmis merk tímamót sem vert er að minnast og kætast yfir, en eins og ég sagði í upphafi krefst allt í dag undirbúnings og skipulagningar til að flestir geti tekið þátt og notið samverunnar í okkar bláa fjallahring. Máli mínu til staðfestingar ætla ég að vitna í "Vorvísur" Valdemars V. Snævarr.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
köldum klaka eyðir,
kveður starfa til.
Kátur fossinn freyðir,
fyllir hamragil.
    Vakir vor í landi.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
vekur blóm á bölum,
býður fuglum heim.
Drótt í frónskum dölum
dátt mun fagna þeim.
    Vakir vor í landi.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
gleður, fjörgar, græðir,
gleymast vetrarsár.
Kapp og framtak fæðir
fjallahringur blár.
    Nú er líf í landi.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
vekur von og gleði,
vermir allt, sem kól.
Nú er glatt í geði,
gullbjört ljómar sól.
    Nú er líf í landi.

03.03.2013 09:04

"Fjöllin í brjósti þér ..... "

Kæru skólasystkin!

Eina stundina er eins og tíminn standi í stað og aðra stundina er eins og hann bruni áfram. Um síðastliðin jól stóð hann allavega kyrr um stund, en skrölti svo aftur af stað upp úr áramótunum. Hann tók svo sérstaklega vel við sér í lok janúar þegar sólin gægðist yfir fjallatoppana og við gátum fagnað með hvort öðru í Sólarkaffinu. Þá leitaði hugurinn til fyrri tíma, sérstaklega þegar Hrólli fór að rifja upp öll prakkarastrikin sín og nánustu vina sinna. En auðvitað er enginn undanskilinn - þetta hreinlega viðgekkst á þessum tíma, þetta var okkar "prakkaratími".

Það hefur oft hvarflað að mér hvað kynslóðirnar á eftir okkur ætla að tala um þegar þau koma saman og fara að rifja upp svipaðan tíma og okkar; ég hef grun um að þau setjist bara í hring með iPaddinn sinn og fara í einhverja rafræna leiki eins og tíðkast í dag. Já, hugsið ykkur hvað við vorum í raun heppin að hafa fæðst á þessum tíma, því það var ekki bara tíðarandinn sem mótaði okkur, heldur einnig umhverfið sem við lifðum í og tókum mið af. 

Á þessum tíma voru göturnar fullar af snjó, vegir lokaðir inn í Djúp og vestur án þessu að allt ætlaði um koll að keyra í sjónvarpinu - bara það væri flogið og Djúpbáturinn kæmist leiðar sinnar. Sum okkar stefndu upp í Stórurð eða fram á Dal  meðan aðrir létu sér lynda að verða eftir í bænum. Á þessum tíma var það eðilegt að leika sér í og milli fjallanna, en í dag er það orðið hættulegt, nema að vel athuguðu máli. Hvað hefur gerst  - hefur náttúran breyst eða hefur tæknin tekið völdin yfir "eðlilegum" kringumstæðum okkar og gert okkur hrædd við upprunann. Því er ekki að neita að veðurfarið hefur "tekið burtu" gamla góða snjóinn okkar og tímans tönn hefur breytt nánasta umhverfi, en ekkert fær tekið burt minningarnar.

Framundan eru páskar sem vekja upp og kalla fram margvíslegar tilfinningar. Sumir hlakka til þeirrar helgihátíðar sem þeir í raun eru, en í hugum okkar flestra eru þeir byrjun vorsins með Ísafjarðalogni, sól, skíðum, skemmtun og góðum mat. Svo ekki gleymist nú allir gestirnir sem flykkjast á staðinn og fylla alla gististaði bæjarins - það verður eitt allsherjar risastórt ættarmót á þessum tíma. Já, það er stórmerkilegt eins og fjöllin eru há og brött og ógnvænleg og fyrir sumum hættuleg, þá flykkjumst við aftur og aftur heim og söfnumst saman í þeim eða á milli þeirra - það er eins og þau eigi sinn stað í brjósti okkar ............

Kæru skólasystkin. Hugur okkar getur ekki alltaf verið samstilltur, en á sérstökum stundum sem páskarnir eru, þá leitar hann ósjálfrátt "heim". Við höfum mismunandi möguleika á að komast "milli fjallanna", en ég vona að hvar sem þið eruð eða verðið á þessum tíma, þá látið hugann fara gegnum þær góðu minningar sem við geymum í brjóstum okkar og styrkja samhugann milli okkar í hvert sinn sem þær koma fram. Orðum mínum til hvatningar ætla ég að vitna í ljóð Matthíasar Jóhannessen, "Fjöllin í brjósti þér"!

Hann skín þér enn við augum dagur sá,
sem öllum dögum fegri rís úr sjá.
Og ennþá kemur hann á móti mér,
og morgunbjört vor ættjörð færir þér

sín himingnæfu fjöll - þú fylgir þeim
sem fugl er snýr á nýju vori heim,
þér fagnar ávallt heiði hrjósturgrá
og himnesk nótt með stjörnuaugu blá.

Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,
þau benda heim svo langt sem auga sér.
Og moldin vakir, mold og gróin tún
 - og máttug rís þín sól við fjallabrún.

Þú kemur heim, þín sól við sund og vík
er seiður dags og engri stjörnu lík,
hún bræðir hrím og vekur vor sem er
svo vængblá kyrrð og þögn í brjósti mér.

03.02.2013 11:57

"Stormar hafa stælt þig ......... "

Kæru skólasystkin!

"Öll él birtir upp um síðir", segjum við gjarnan þegar mikið hefur gengið á og síðan fer að lægja eða sér fyrir endann á þeim málum og þá yfirleitt vandamálum sem við horfum upp á eða erum aðilar að. Þannig var okkur vestfirðingum örugglega innanbrjósts þegar eitt af verstu vetrarveðrunum geisaði yfir um daginn, braut niður rafmagnsstaura, sleit sundur rafmagnslínur og lokaði helstu vegunum. Það er ótrúlegt hvað getur komið upp á, þrátt fyrir að við teljum okkur hafa undirbúið hlutina þannig eða búið svo um hnútana að allt eigi að vera öruggt og þekkt vandamál ekki að þurfa að endurtaka sig. Þannig hugsuðu þeir sem voru á vaktinni í Orkubúinu þegar drepa þurfi á ljósvélinni og ekki til rafmagn í endurstartið og þeir sem lokuðust inni í Súðavík og komust hvorki um lönd né strönd og við sem horfðum á eftir Katý skólasystir okkar eftir mikla baráttu við illvígan sjúkdóm. 

Já - það var blásið til Sólarkaffis Ísfirðingafélagsins í Reykjavík. Ég hef alltaf litið á þessar  samkomur eingöngu ætlaðar öldruðum Ísfirðingum og ekki okkur unglingunum. En undanfarin ár hefur stíft verið leitað í raðir okkar að ræðumanni kvöldsins eins og í þetta sinn, þegar Hrólli varð fyrir valinu. Það var því ekki að ástæðulausu að fiðringur fór um 1954 árganginn af tilhlökkun eftir að heyra hvar skólbróðir okkar myndi grípa niður í minningabankann. Ég er sannfærður um að tilhlökkun Hrólla hafi ekki verið mikil fyrir að stíga á þennan stokk; hann hefði frekar viljað sjá beljandi sjó og spriklandi fiska heldur en öll þessi andlit, kringlótt af spenningi yfir því hvað hann myndi segja. Eins og vænta mátti fór hann á kostum í frásögn sinni af prakkarastrikum sínum og nánustu félaga hans, hverfabardögum Hlíðavegs-, Króks- og Neðribæjarpúka og óförum fólks sem allir þekktu. Þannig "birti öll élin okkar upp um síðir" með bardaga og sigurrræðunni hans Hrólla og síðan söng og spili skólahljómsveitarinnar Trapp sem viðhélt sigurvímunni inn í svefninn.

Og hvað svo - jú, þó svo að "mér finnist svona samkoma ætluð öldruðum einstaklingum", þá ætla ég ekki að láta það trufla mig lengur, heldur njóta þessa tækifæris sem gefst til að við 1954-ingar hittumst og kætumst saman og náum þá einnig að hitta alla hina (þessa eldri) líka. Það var því sérstaklega ánægjulegt að mæta fyrst heima hjá Siggu og Hilmari, því þegar á hólminn kom var margt annað sem truflaði samveruna. Ég sakna þess meir og meir að ekki fleiri nái að koma og vera með. Eins og alltaf eru aðstæður misjafnar eða skilaboð, sími og tölvupóstur ekki að virka sem skildi. Ég er viss um að ef við leggjum okkur öll fram og ekki bara nokkrir, þá mun það takast smám saman að hópurinn stækkar og þéttist og fleiri tækifæri verði að raunveruleika.

Eftir svona él, kemur yfirleitt blíða. Og þar sem við notum hér stöðugt samlíkingu við veðrið, þá var mér snemma kennt að "það er alltaf veður", en það er undir mér (okkur) komið hvernig við bregðusmt við því. Á þessum tíma er dagurinn farinn að lengjast eða birta hans að aukast enda sólin búin að ná yfir fjallatoppana fyrir vestan. Það minnir okkur á að páskar séu einnig skammt undan og markmiðin beinast því næst að þeim. Enn einu sinna getum við fagnað því að vera Ísfirðingar, því þar er fjörið og ekki í henni Reykjavík. Þannig geta þeir sem ætla vestur um páskana farið að hlakka til þess tíma og reiknað inn smá aflögustund til að hittast þar og kætast saman.

Kæru skólasystkin. Ég vil enn einu sinni hvetja okkur til að hugsa vel til hvers annars og reyna að hafa upp á eins mörgum "týndum" systkinum og hægt er, til að ná þeim aftur inn í hópinn okkar. Þegar ég hugsa til ræðunnar hans Hrólla, þá fyllist ég eldmóði og átthagaþrá sem Hrólli staðfesti að væri innst inni í okkur, en ég tel mig einnig skilja efa og ótta sem getur auðveldlega komið upp og orðið þessum löngunum yfirsterkari og fjarlægðinni fegnari. Orðum mínum til stuðnings vitna ég í dag í kvæði Sverris Haraldssonar, "Stormar hafa stælt þig".

Stormar hafa stælt þig
og styrjaldirnar hert þig,
nepjan hefur níst þig,
svo nú ertu líkt og gengur
kaldur ein og klaki
og kvartar ekki lengur.

Sorgin hefur sært þig
og söknuðurinn grætt þig,
bestu vinir blekkt þig
svo bærist varla lengur
innst í þinu eðli
æsku þinnar strengur.

En vorið hefur vermt þig
og vonin hefur glatt þig,
söngur hefur seitt þig,
og svo mun hljóma lengur
innst í þínu eðli
yndislegur strengur.

Trúin hefur treyst þig
og tryggðin hefur styrkt þig,
vorið hefur vermt þig
svo verða muntu lengur
bak við héluhjúpinn
hjartagóður drengur.
Flettingar í dag: 113
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 44
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 120218
Samtals gestir: 24955
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 09:34:28
clockhere