04.09.2016 21:39

"Aldurinn ........"

Kæru skólasystkin!

Ég þurfti smá umhugsun til að átta mig á skeytinu frá Lilju hér um daginn: "enginn veit, hvað undir annars stakki býr" ...."HJjr, er nokkuð nýtt á döfinni"? Ég var jú að enda við að skrifa þetta í síðustu hugleiðingum mínum um hann Bjössa á Bergi! Hvað er hún eiginlega að meina með þessari gátu; - ups, það er liðinn þriðjungur úr ári síðan þetta var skrifað, svo það er ekki skrítið að spyrja hvort íslenski tíminn sé staðnaður eða hvort við séum kannski dottin úr sambandi. Nei - hvorugt, ég held að tíminn líði bara aðeins hægar um þessar mundir; kannski er það aldurinn kæra Lilja?

Það má kenna aldrinum um ýmislegt, en síðan síðast er búið að vera heilt sumar með þvílíkri veðursæld að aldrei hefur annað eins verið til á Íslandi - allavega ekki á okkar lifsskeiði. Ég er sannfærður um að ekkert okkar hefur setið auðum höndum; margir náðu saman á hittingi á Ísafirði, aðrir náðu saman í fótboltanum, á golfvellininum, í bústaðnum eða í húsbílnum .....

Það var tær snilld að ná saman á Ísafirði í sumar. Þó fyrirvarinn hafi verið stuttur (illa auglýst) voru þó margir sem voru búnir að "spotta" þetta út og svo aðrir sem  gera geta gert hlutina fyrirvaralaust. Þeir sem komast njóta vel og hinir sem ekki komast, njóta gegnum frásagnir og myndir og þannig viðhaldast þessi órjúfanlegu bönd sem tengja okkur saman.

Við þurfum á sama hátt og hittingur brestur "fyrivaralaust" á fyrir vestan að finna leið til að slíkt geti einnig orðið hér á suðvestur hluta landsins. Með öllum þeim tæknibúnaði sem við kunnum ennþá á og höfum á að skipa, þá látum við þetta verða að raunveruleika fyrr en síðar. Þó Facebook og Skypið slái engu við á neyðarstund, þá er ekkert sem slær við "knúsi og krami". 

Þó haustið sé dottið á samkvæmt tímatali og yfirvofandi haustverkum eins og berjatýnslu og sláturtíð, þá er erfitt að ímynda sér það miðað við það veður sem ennþá er í kortunum. Ég skil því vel að við séum ekki alveg tilbúin að setjast niður til að fara ryfja upp gamla tíma og ræða málin. Það kemur þó að því að við setjumst niður hvort sem við viljum eða ekki og þurfum að horfast í augu við að aðrir eru staðnir á fætur til að gera framkvæma alla þessa hluti sem við erum bara vön að taka okkur fyrir hendur af gömlum vana. Þetta kallast í sinni víðustu merkingu: "aldurinn", hvaða skilning sem við svo sem leggjum í hann. Þannig færumst við hægt og bítandi inn í setu- og yfirsetu hlutverkið með öllu sem það býður upp á. 

Ég held við séum mistilbúin til að taka þessu lögmáli og misundirbúin að horfast í augu við þessa staðreynd. Ég tel að þetta sé flókin klukka líkama og veruleika sem undirbýr okkur vitandi og kannski líka óvitandi eins og líkama konu sem aðlagar sig að barni bæði á meðgöngu sem og fyrir og eftir fæðingu. En eins og ég hef sagt áður, þá eru það genin sem er stóri lykillinn í öllu ferlinu og svo áreitið gegnum tímann bæði innan í frá og að utan sem hnoðar og mótar okkur gegnum lífið. 

Kæru skólasystkin! Ég er svo himinlifandi glaður yfir því sambandi sem við erum í með þeim miðlum sem við höfum stofnað. Það er mikill ágangur fólks að komast inna Facebook síðuna okkar, en samkvæmt síðustu ákvörðun, þá hef ég neitað öllum sem til mín hafa leitað eftir að vera þar með. Ég veit að við erum dugleg að tala um samheldni okkar og ánægjustundir út á við og ég bið ykkur áfram að ná til þeirra okkar sem enn eiga eftir að komast inn í hópinn okkar. Þar sem ég er búinn að kenna góðu sumri og ýmsum viðburðum um langan tíma milli skrifa, ætla ég að láta fallegar hugleiðingar Þóru Jónsdóttir um aldurinn verða endapunktur þessara hausthugleiðinga.

Andlit þitt
er ekki framar ungt

en augun segja
við spegilmynd sína:

Sálin hefur engan aldur.

Þú gengur sem fyrr
út í birtuna
og gleðst yfir deginum.

17.04.2016 08:24

"Bjössi litli á Bergi ............"

Kæru skólasystkin!

Vorum við ekki vön að hvíla skíðin að loknum páskum? Allavega fækkaði ferðurðunum upp á Dal og upp í Stórurð nema veðrið væri "æðislegt", því nú tók alvaran við. Þannig að þetta "dýrlega" við sumarið byrjaði aldrei neitt auðveldlega. Ég man séstaklega eftir hvað það var leiðinlegt að vera "innilokaður" í próflestri og æfingum fyrir tónleika, en mesta kvíðaefnið var samt að þurfa stinga upp alla kartöflugarðana og síðan setja niður - þá var meiri verkur í bakinu en í verstu tann- og eyrnarpínu. 

En svo var þetta nú allt yfirstaðið og blessað sumarið kom eins og fjallkonan hafði lofað okkur í fjallræðu sinni á spítalatúninu. Hvað við vorum auðtrúa, standandi þar, rennblaut og skjálfandi í snjókomu, í skátabúningi, stuttbuxum og pilsi, með trommur og rifið skinn sem þoldi ekki barninginn í bleytunni. Af hverju datt mér nú þetta endilega í hug? Jú, við Lilja vorum í vikunni að kasta á milli okkar dásemdarorðum yfir veðurmyndavélunum á Ísafirði. Þannig var ég kominn í huganum vestur og farinn að hugsa til komandi fimmtudags sem er sumardagurinn fyrsti. Í þessum hugleiðingum fór ég mjög léttklæddur út á tröppur í morgun og átti ekki alveg von á haggléli sem dundi yfir og hefði farið illa ef ég hefði verið með "kaffi og sígó"!

En páska- og vorvenjur hafa nú breyst hjá okkur sem öðrum. Bæði hafa áhugamál og áherslur á hvað gera þarf og hvað má bíða betri tíma bæði okkar og barna (nna) breyst frá því sem áður var - sem betur fer; eða eins og Bjarndís segir: "ég nýt samverunnar við fólk meira en tækninnar"! Það var því meiri háttar gaman að kallað var til "samveru" í Húsinu um daginn. Ég held að einmitt svona skyndiákvarðanir frekar en langtframítímann ákvarðanir sé einmitt það sem við þurfum að vera vakandi fyrir til að betur halda í "skottið" á hvert öðru. Ég er ennþá sannfærður um að "maður sé manns gaman" og þó tæknin geri okkur kleyft að spjalla og skjalla með einföldum hætti, þá er það nándin og núningurinn við hvert annað sem gefur lífinu dýpra gildi.

Að lokum vil ég minna okkur á að næstkomandi tveir fimmtudagar eru ekki neitt venjulegir dagar, því sá fyrri er ekki bara sumardagurinn fyrsti, heldur einnig 21. apríl og sá seinni 28. apríl, en þetta eru fermingardagarnir okkar frá 1968. Ef ekki hefði verið fyrir atbeina Halldórs Ólafssonar og séra Sigurðar, þá væru ekki til þessar margfrægu hópmyndir sem m.a. prýða heimasíðuna okkar. Þarna erum við, meirháttar sæt og fín og hugsið ykkur - við erum ennþá að spjalla saman tæplega hálfri öld seinna! Nú ætla ég að staðhæfa að þetta heitir ást og væntumþykja og erfðist með 1954 genunum. Þess vegna þurfið þið ekkert að óttast þessa tilfinningu og halda að hún sé væmin eða hættuleg; þetta er hreinlega náttúrulegur hluti af okkur. Þetta er gersemi sem við eigum sýnilega og heyranlega að vera stolt yfir og fjársjóður sem við getum ekki nógsamlega þakkað fyrir að eiga. og verður aldrei frá okkur tekinn.

Kæru skólasystkin! Enn og aftur varð mér tíðrætt um heimahagana, lífið þar áður fyrr og nú og þau órjúfanlegu bönd sem tengja okkur saman. Það væri einkennilegt og óeðlilegt ef umherfið og við breyttumst ekki á hálfri öld, en munum að blóðtengingin er sönn og öllu öðru yfirsterkari. Orðum mínum til stuðnings vitna ég í kvæði Jóns Magnússonar: "Bjössi litli á Bergi":

Bjössi litli á Bergi,
bróðurlaus á jörð,
hljóður fram til fjalla
fylgdi sinni hjörð.
- Stundum verða vorin
vonum manna hörð.

Bjössi litli á Bergi
bjó við stopul skjól.
Hálsinn hamrasvartur
huldi vetrarsól.
Inni jaft sem úti
einstæðinginn kól.

Ein með öllu gömlu
unga sálin hans
þoldi þunga vetur
þögn og myrkur lands.
Löng er er litlum þroska
leiðin upp til manns.

Kæmi hann til kirkju
klæðin bar hann rýr.
Hryggð í hvarmalogum
huldu þungar brýr.
Enginn veit, hvað undir
annars stakki býr.

06.03.2016 10:22

"Eins og þú sáir ...... "

Kæru skólasystkin!

Takk fyrir að taka ekki undir volæðistextann sem birtist hér síðast. Ástæðan er líklegust sú að mér var brugðið við að uppgötva kynslóðaskiptin á Sólarkaffinu. En tíminn tifaði áfram og er búinn að lækna svona smáskeinur. Ég hef samt verið smá hugsi yfir þessum formlegu samankomum sem við höfum kallað "hitting", hvort þær eins og annað sé að breytast með þeirri samskiptatækni sem okkur býðst í dag og var hreinlega ekki til hér áður fyrr.

Þið munið kannski (ekki) þegar við byrjuðum með heimasíðuna, hvað þetta þótti djarft að fara að tjá sig fyrir veröldinni í texta og myndum. Ég er viss um að bara sá verknaður náði að safna okkur saman undir einn hatt, þó svo okkur sé misjafnlega ljúft að setja þar orð og texta á blað. Með tilkomu fésbókarinnar urðu hreinlega kaflaskil ekki bara hjá okkur heldur um heim allan og það leið ekki á löngu þar til Twitter og Instagram skelltu sér með í lífsins leik. Í dag eru þetta orðin aðal samskiptaformin í heiminum, því hægt er að miðla upplýsingum, stundarupplifun og gjörning líðandi stundar án þess að stoppa og staldra við og gera þannig samtöl og samkomur að tímaspilli. Já, kannski ættum við að hætta að stressa okkur á þessum "úrelta"? hittingi og sjá hvort annað meira eins og nútíminn gerir með rafrænum hætti ........!

En hvað sem þessu líður, er ekkert sem breytir því að páskarnir nálgast óðfluga. Ég ætla rétt að vona að við förum ekki að senda hvort öðru rafræn páskaegg, heldur nota þann lausa tíma frekar til að minnast þess hvað var gaman þegar sólin reis hærra og hærra í bænum, snjórinn fór að bráðna af húsþökum með tilheyrandi grýlukertum og vatnsleka og lífið fór hreinlega að glaðna í bænum okkar. Það er þó ekki laust við að tilhlökkunin eftir páskunum sé skemmd með nammibanni og sykurskertu fæði sem gerir páskaeggin ósnertanleg úr hyllum og af brettunum í Bónus. Engu að síður er þetta sa tími þegar myrkrið og kuldinn víkur fyrir birtu og yl og gefur til kynna að nú sé vorið á næsta leiti; allavega hefur Lilja staðfest það tímatal með trönudansinum í Svíþjóð.

Svona til að lenda þessari rafrænu hittings pælingu, væri ekki úr vegi að við létum hvert annað vita af ferðum okkar hér og þar, þeas að þegar Sunnlendingar hyggja á ferð vestur og Ísfirðingar á ferð suður, að láta þess getið á heimasíðunni okkar á FB, þar sem hún er lokuð. Ég geri ráð fyrir að einhver okkar fari vestur á "Aldrei fór ég suður" - þá væri kjörið að láta á þetta reyna og kætast saman af minna tilefni.

Kæru skólasystkin. Nú hef ég tuðast nægilega yfir kynslóðaskiptum og breyttu samskiptaformi nútímans. Það má segja að tíminn tifar áfram óháð okkar áliti og þannig breytist líka tilveran. Okkar er valið að fylgja(st) með þeim breytingum sem viðhalda lífi okkar "lifandi" eins og segir í máltækinu: "Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær". Þannig ætla ég að hvetja hvert og eitt okkar áfram til að vita og vitja hvers annars með öllum þeim ráðum og dáðum sem gefast hverju sinni. Orðum mínum til stuðnings vitna ég í dag íkvæði Þorgeirs Sveinbjarnarsonar: Eins og þú sáir. 

Jörð þín liggur
í landi tímans.

Í sama reitnum lifir
ljós og myrkur.
Í sömu moldu sprettur
sumar og vetur.

Sáir þú ljósi?

Syngur jörð þín
birtuskær vorljóð
eða haustsöngva
skuggahljótt?

Hjarta,
þú sáir rökkri,

uppsker nótt.

31.01.2016 17:42

"Vonlaust getur það verið .......?"

Kæru skólasystkin!

 
Það var á síðstliðnu ári sem ég var farinn að hlakka til næsta hittings á Sólarkaffinu 2016. Í millitíðinni komu jól og áramót og allir eðlilega uppteknir við þau tímamót. Þá kom auglýsingin með dags- og staðsetningu. Þvílík þögn sem varð í kjölfarið. Þögnin var rofin af Jómba og Maju Kristjáns með orðafrösum sem eiga ekki við fyrr en á elliheimilinu. Í kjölfarið var send út neyðartilkynning með formlegu boði á FB; a.m.k. 2 réttu upp hendi. 
 
Við (ég og María G) komum of seint. Þegar við komum í dyrnar á Gullteig var salurinn eiginlega fullur af fólki, en það var algjör þögn. Við vissum ekki hvort við höfðum farið villur vegar eða hvort allir héldu niðri í sér andanum af spenningi yfir að við birtumst. Við hvesstum augun yfir borðin - hjálp - hvert erum við komin; hverjir eru þetta. Voupps - lengst í fjarska sá ég Konna, svo Maju Kristjáns ......; þetta var allavega réttur staður en rangar dyr - við flýttum okkur gegnum hinar og inn til þekktra andlita. Auk fyrrnefndra voru þar einnig Maja Friðriks og makar ásamt Helgu Bjössa Gísellu. Þá var staðfest að Gummi Stebbi og frú og Ómar Leifs væru einnig mættir, en þeir væru einhvers staðar út í sal.
 
Við misstum af pönnsunum og kaffinu, en náðum samt að stimpla okkur inn í hópinn sem sat við tvö borð, þegar klappað var fyrir ræðumanni kvöldsins, henni Möggu Geirs. Magga fór á kostum - þó hún væri hvorki efri- eða neðri-, heldur miðbæjarpúki. Það voru hreint ótrúlegar sögurnar sem hún dró fram um líf sitt og leik í landi framliðinna og hvernig hún ekki síður en aðrir lenti í smá pústrum við eldri íbúa í nágrenninu. Þá virtist leikvöllur hennar einnig hafa verið mikið upp á bæði þökum og niður í kjöllurum og síðast en ekki sízt út á jökum sem sóttu að henni frá bæði austri og vestri. Þó svo hún hafi sloppið við eða misst af einelti og hverfisbardögum, þá lagði hún það fyrir sig að vera stjórnsöm á daginn og syngja sig inn í hjörtu okkar á kvöldin og um helgar með BG.
 
Að Möggu lokinni stigu á svið tveir fimleikastrákar og sýndu ótrúlega leik- og lofthæfleika eins og þegar við vorum upp á okkar bezta í skólaleikfiminni. Í kjölfar þeirra steig á svið hljómsveitin Húsið á sléttunni og þar eignuðum við okkur bæði Halldór Smárason Agnesarfrænda og Sunnu Karen Einarsdóttir. Dansgólfið var hins vegar ekkert eða bleðill á stærð við jólafrímerki, þannig að aðeins þeir allra hörðustu (sjómennirnir) höfðust þar við.
 
Þegar upp var staðið fór ég ósjálfrátt að raula - ekki af því að mér væri allt, heldur af söknuði: "Hvar er húfan mín, hvar er hetta mín, hvar er 1954 árgangurinn"?? Ég horfði í kringum mig og sá ekki betur það væru fleiri raulandi en ég. Það sagði þó enginn neitt, en það var meira horft til borðsins á bak við okkur sem var algjörlega tómt og þar voru 10 laus sæti. Það var ekki fyrr en út í bíl á leiðinni heim að María þorði að spyrja mig: "Halldór, hverjir voru þarna fyrir utan ykkur "? Ég þurfti aðeins að hugsa mig um - "þetta voru held ég ísfirskir unglingar"! Það rann skyndilega upp fyrir mér að það vantaði ekki aðeins 1954 systkinin heldur það voru orðin kynslóðaskipti!
 
Kannski var afmælishátíðin í fyrra lokapunktur þessarar hátíðar fyrir einhver okkar eða marga. Það má segja að það geti margt verið skemmtilegra en að bíða í klukkutíma eftir kaldri rjómapönnuköku sem á að minna okkur á að þá eiga fyrstu sólargeislar ársins að brjótast yfir Engidalsfjallið og lýsa inn í Sólgötuna hennar Möggu. Það er ekkert ólíklegt að með tímanum (aldrinum) þurfi að breyta um bæði samskiptaform og samveruform, þannig að nú sé komið að því að við hittumst með öðrum hætti og kannski á öðrum og auðveldari tíma. Mér finnst við ættum að taka þá umræðu alvarlega og taka hana til athugunar, til þess að við náum að viðhalda þeim sterku böndum sem ríkja innan árgangsins okkar.
 
Já, kæru skólasystkin. Til þess að halda okkur við efnið að öðru leiti, þá varpaði ég fram þeirri áskorun að ég myndi reyna að finna út við hvern afmælisdag ykkar, hvaða tilfinningu þið hefðuð fyrir uppruna ykkar út frá því hvaðan foreldrar eru fæddir og uppaldir. Eins og þið hafið séð á FB, þá hefur þetta gengið stórlsysalaust fram til þessa - erfiðast er að finna uppruna þeirra sem eru aðfluttir. Orðum mínum til stuðnings ætla að nota kvæði Guðmundar Inga Kristjánssonar: Vonlaust getur það verið!
 
Þú átt að vernda og verja,
þótt virðist það ekki fært,
allt sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.
 
Vonlaust getur það verið
þótt vörn þín sé djörf og traust.
En afrek í ósigrum lífsins
er aldrei tilgangslaust.

14.12.2015 21:07

"Er sólin hnígur .........."

Kæru skólasystkin!

Titillinn að fyrstu hugleiðingum þessa árs var: "Hvað boða nýárs blessuð sól ....?" Það er því við hæfi að líta í baksýnisspegilinn og enda árið með því að láta sólina hníga aftur til viðar! Ég hafði áhyggjur í upphafi árs af öllu því neikvæða sem fréttamiðlarnir drógu fram og mötuðu okkur á og hvatti okkur til að taka ekki þátt í þessu og sýna jákvæðni bæði í orði og verki. Ég vonaðist til þess að heyra meira í okkur á heimasíðunni eða á fésbókinni við að peppa hvert annað upp. Það hefur tekist mjög vel til hjá okkur í afmælisgeiranum því þar streyma nú inn hamingjuóskir og kemur sér örugglega vel hjá þeim sem mögulega voru að gleyma þessum merkilega degi. Þá hafa myndir einnig sett skemmtilegan svip á tilveruna og rifjað upp gamlar gleðistundir.

Næst barst talið að okkar fyrri matarvenjum og hreyfingu, en það var vegna þess að ég var orðinn uppgefinn á að tala fyrir sljóum eyrum og samtímis mæta kröfum nútímans um fullkomið heilbrigði. Ég var nefnilega að reyna að standa við upphafsorð mín að vera jákvæður og tala með uppbyggjandi orðum, en komst þá að því að það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir; þeir þurfa nefnilega að hljóma þannig að viðmælandinn bæði skilji það sem verið er að segja og einnig að honum falli það í geð. Annars flokkast orðin hreinlega undir hroka eða rangtúlkun á raunveruleikanum. Allavega virðist vera hægt að sleppa við kæru með því að ítreka nauðsyn þess að standa upp á milli máltíða.

Þá fór veðrið að fara fyrir brjóstið á mér sem öðrum. Það er hreint ótrúlegt hvað hægt er að slepp sér í að úthúða hlut sem við getum ekkert haft áhrif á öðru vísi en að "haga seglum eftir vindi", eins og forfeður okkar gerðu. Hversu oft höfum við ekki heyrt að það sé ekki til slæmt veður heldur bara slæm föt. Það er hins vegar ekki fyndið þegar Kári keyrir í 70m/s, því þá gáir hann ekki einu sinni að því hvort maður er í bláum eða orange galla. Ég hugleiddi mikið nú síðast þegar allir voru reknir inn í hús á meðan ósköpin gengu yfir: hvað var eiginlega hvasst þegar mamma batt mig og Guðfinnu systir saman með kaðli áður en við fórum í skólann. Einu varnaðarorðin voru þau að "ef þið byrjið að fjúka, reynið þá að lenda sitt hvoru megin við staurana"! Ég man hins vegar vel eftir svipnum á skóla-afa bak við gluggann á útidyrum Barnaskólans þegar hann með miklum handasveiflum og andlitsgrettum reyndi að koma okkur í skilning um að fara aftur heim; skrítið!

Loxins kom að því að við gætum heimsótt heimahagana á hverjum degi gegnum veðurmyndavélar. Ég sendi Birni yfirmanni Snerpu og Pétri Odds myndavélastjóra marga tölvupósta og bað um breytingar á sjónarhorni og gjarnan fleiri vélar því það væri heill árgangur að "taka púlsinn á tilverunni" og við sæjum stundum ekki alveg nógu vel fyrir sum hornin á húsunum! Viti menn, vélafjöldinn var tvöfaldaður fyrir okkur - nú vantar bara hljóðið !! Ef vel er að gáð, þá hefur veður lagast verulega á Ísafirði og fyrir vestan og íbúar eru farnir að hegða sér "öðru vísi". Tvennt sem vekur sérstaka athygli er að þeir sem eru akandi hægja á sér og þeir sem eru gangandi horfa svo stíft upp í myndavélina að hægt og bítandi eru þeir búnir að snúa sér við og ganga aftur á bak! Það nýjasta nýtt er að ef við veifum frá skjánum okkar, þá eru sumir sem veifa á móti. Þetta á þó ekki við alls staðar, t.d. á milli Silfurtorgs og Pósthússins er algengt að fólk sé með hettu á höfðinu og snúi sér frekar undan; veit ekki alveg af hverju - líklega er það byggingastíllinn eða mögulega vöruframboðið sem er meira aðlaðandi og þannig truflandi fyrir myndavélarnar.

Að lokum hóf haustið innreið sína með sínum marvíslegu áhrifum á bæði náttúru og menn. Ég hvatti okkur til að nýta landsins gjafir af berjum og slátri og undirbúa forðakisturnar fyrir veturinn. Ég er viss um að helmingur okkar tók áskoruninni því þeir eru aldir upp í þessum siðum og venjum og hafa geta viðhaldið hefðinni þrátt fyri hvað auðvelt er að fá hlutina bara tilbúna í búðinni. Ég frysti allavega lamb og sagaði í bita (allt löglegt) og var sigri hrósi yfir að standa við mitt, þó auðvelt væri. Svipaða sögu hafa örugglega þeir sem fóru á hreindýr, gæs og í fiskveiði og við segjum upphátt: "allt gefur þetta lífinu og tilverunni gildi". Hins vegar setur mann jafnmikið hljóðann og spyr tilveruna um tilgang þess að skólasystir sé hrifin frá okkur með óviðráðanlegum sjúkdómi. Minningin um hláturinn hennar vekur okkur hins vegar aftur til lífsins og minningin um faðmlagið hennar setur okkur aftur á 1954 sporið, sem er byggt á trausti og virðingu okkar til hvers annars. 

Kæru skólasystkin! Er sólin hnígur og við horfum tilbaka, þá höfum við áorkað miklu af því sem við settum okkur í ársbyrjun. Nú er jólaundirbúningur á fullu og árið senn á enda eins og áður. Ég vil hvetja okkur til að hugleiða bæði liðnar stundir og hvað betur má gera og ekki síður nýtt á komandi ári. Það er t.d. ekki seinna vænna en núna að merkja inn næsta hitting okkar á Sólarkaffinu þann 29. janúar nk. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með öllum þeim efndum sem við ætlum að standa við. Þá vil ég sérstklega þakka fyrir þá auknu þátttöku í allri umræðu sem átt hefur sér stað á árinu með ósk um að hún verði enn meiri með tímanum. Þessum hugleiðingum mínum til stuðnings, ætla ég að nota kvæði Hannesar Hafstein: "Er sólin hnígur"!

Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ
og höfuð sitt til næturhvíldar byrgir,
á svalri grund, í golu þýðum blæ
er gott að hvíla þeim, er vini syrgir.

Í hinstu geislum hljótt þeir nálgast þá,
að huga þínum veifa mjúkum svala.
Hver sælustund, sem þú þeim hafðir hjá,
í hjarta þínu byrjar ljúft að tala.

Og tárin, sem þá væta vanga þinn,
er vökvan, send frá lífisins æðsta brunni.
Þau líða eins og elskuð hönd um kinn
og eins og koss þau brenna ljúft á munni.

Þá líður nóttin ljúfum draumum í,
svo ljúft, að kuldagust þú finnur eigi,
og, fyrr en veistu, röðull rís á ný,
og roðinn lýsir yfir nýjum degi.

22.11.2015 08:23

"Faðmlagið og hláturinn ........."

Kæru skólasystin!

Enn kom skarð í 1954 hópinn, þegar kær systir okkar, Magga Odds, kvaddi heiminn þann 13. nóvember sl. eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Það var stingur í hjartanu í gærmorgun þegar allt í einu var komið að því að kveðja hana frá Skálholtskirkju. En eins og fyrr sá hún til þess að umfaðma mig og alla sem þangað stefndu með sólargeislum yfir Tungunum og frostmóðu yfir Skálholtssvæðinu.

Sveitin hennar Möggu, Tungurnar, tók vel á móti vinum og vandamönnum sem streymdu alls staðar að á þessum fallega brottfarardegi hennar. Á meðan orgelið seiddi frá sér uppáhalds laglínur, fylltist mikilfengleg og virðuleg kirkjan á örskammri stundu og sveitailmurinn varð ríkjandi. Það var mjög kallt, bjöllurnar hringdu, hurðin lokaðist og raunveruleikinn brast á.

Á meðan lagið "My way" hljómaði, komu fram minningarbrot mín um Möggu frá barnaskólanum, sem síglaða og mjög duglega stelpu; enda komst hún strax í "klíkuna"! Þegar svo séra Egill fór að lýsa henni nánar, þá fór ekki á milli mála að fleiri áttu ítök í henni en 1954 árgangurinn. Orð Egils voru sönn og einlæg frá upphafi til enda og hann talaði frá hjartanu fyrir hönd allra sem þarna sátu. Þá ítrekaði hann svo ekki var um villst að "hún átti okkur og við hana"! Þá sá ég líka Möggu ljóslifandi fyrir mér þegar hann lýsti: "þéttingsföstum faðmlögum hennar" sem ítrekuðu þann sanna vin sem hún var og "smitandi vestfirskan hlátur" sem ekki hafði áður heyrst um þessar slóðir áður og vakti því sofandi sveit til lífs. Að lokum ljóstraði hann upp um prakkarastriki eins nemanda í sveitinni sem hafði skrifað á vegginn bak við hurðina í matarbúrinu hjá Möggu: "bezti kokkur í heimi"!

Þegar lagið: "Góða ferð" hljómaði í lokin var ekki um villst að komið var að síðustu mínútum kveðjustundarinnar. Sporin út á stéttina að kistunni voru ekki síður þung en upp tröppurnar. En úti var sólin að setjast og frostmóðan farin með Möggu til himins. Þessi kveðjuathöfn var svo falleg og sönn að stingurinn fór úr hjartanu. Í Aratungu fengum við svo að kynnast "Hnallþórunum" sem Magga var búin að kenna sveitungum sínum að baka. Þar áttu 1954 púkarnir góð stund saman, þó tilefnið hefði mátt vera annað. Kveðjuluktin okkar til Möggu stóð með glæsibrag á tröppunum og heilsaði öllum og kvaddi að lokum.

Kæru skólasystkin! Nú er hún Magga okkar Odds búin að yfirgefa jarðheiminn. Eftir sitja minningar um kæra systir sem hafði sanna vináttu, glaðlyndi og eljusemi að leiðarljósi fyrir okkur. Ég bið að við varðveitum minningu hennar með því að viðhalda því sem hún kenndi okkur. Ég bið einnig Guð um styrk og stuðning til fjölskyldu hennar og varðveizlu yfir öll barnabörnin.Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í 2 vers úr Hávamálum:

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varp eg villur vega;
auðigur þóttumk,
er eg annan fann,
maður er manns gaman.

- - - - - - - - - - - - - - 

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn,
að adkrei deyr;
dómur um dauðan hvern.

12.10.2015 18:50

"Hugur og hjarta ........."

Kæru skólasystkin!

Haustið hefur haldið innreið sína með hverrri lægðinni á fætur annarri og tilheyrandi kulda og slyddu. Kindurnar flúðu af fjöllum, gæsin í suður og rjúpan og gróðurinn breytir um lit.Það eru forréttindi að geta fylgst með þessum náttúrfyrirbærum og minna okkur borgar- og bæjarbörn á hvað tilveran getur verið bæði falleg og hörð. Það er þó ekki fyrr en ár og reynsla bætist við tímalínuna okkar að við getum skynjað þennan margbreytileika. Ég er viss um að enginn okkar sem rak fé af fjalli í gamla daga hafi þótt það tiltökumál að koma grei lömbunum í réttina og til slátrunar án þess að hugsa djúpt út í tilkomu þeirra og áfangastað.Það færi því betur að erlendir ráðamenn hugsuðu nú málin af raunsæi áður en þeir verða búnir að hrinda 3. heimstyrjöldinni inn í veruleikann með ákvörðunum sínum og illgjörðum. Hugsið ykkur hvað við eigum nú gott að enn snúist aftökur okkar bara um lömb!

Haustið kallar á margvíslegan líkamlegan undirbúning fyrir veturinn. Annars vegar að undirbúa hýbýli og farartæki fyrir langvarandi bleytu og kulda og hins vegar að safna í forðabúrið svo enginn verði nú svangur. Það væri hrikalega gaman að heyra og sjá hvað við erum búin að vera "að bauka" í haustinu. Ég geri fastlega ráð fyrir að einhver hafi smellt mynd af skondnum uppákomum og lumi á hernaðar leyndamálum við frágang á berjum og slátri. Það hlýtur að vera hægt að leka slíku inn á FB síðuna okkar sem ennþá er nú lokuð fyrir öllum "utanaðkomandi"! Sjálfur datt ég afrakstur af lömbum og gæs og skal gera allt til þess að deila upplýsingum til fleirri verði svo að hugmyndin falli í kramið.

Haustið kallar líka á andlegan undirbúning með heimsóknum í leikhús og uppákomur eins og margvíslegar tónlistaveizlur. Sum okkar njóta þessara dásemda gegnum internetið en aðrir vilja mæta á staðinn og fá tilfinninguna beint í æð. Það sem okkur er skyldast í þessum efnum er Sólarkaffið og því væri það mjög gott ráð að taka strax frá síðustu helgina í janúar til þess að við náum sem flest að hittast í leiðinni. Þangað til þá eigum við eftir að spjalla, hrósa og uppörva hvert annað gegnum síðurnar okkar, httinga og símtöl. Ég vil minna okkur öll á hversu dýrmæt við erum eitt og sérhvert en styrkur okkar er í samhuganum og heildinni.

Kæru skólasystkin. Haustið hefur margar birtingarmyndir og vekur okkur til ólíkra verka og hugleiðinga. Ef 3. heimstyrjöldin skellur nú á, þá munið að við höfum hvert annað og þá verður slíkur atburður í okkar augum að engu. Orðum mínum til stðuning ætla ég að vitna í kvæðið Hug og hjarta eftir Stephan G. Stephansson:

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.
Vinur aftansólar sértu,
sonur morgunroðans vertu. 

30.08.2015 17:59

"Hver dagur á nýjan söng ......"

Kæru skólasystkin!

Af bæði dagatalinu og veðrinu að dæma er sumarið senn á enda og haustið stutt undan. Hvorutveggja eru orðin úrelt fyrirbrigði til viðmiðunar því allt kemur þetta fram á facebookinni okkar með margvíslegum hætti. Hjá mér hrönnuðust inn myndir af barnabörnunum að verzla í skólabúðinni og síðan á tröppunum heima hjá sér - ofurstolt með skólatöskuna á bakinu (kannski mynd af Andrési önd ??). 

Já - við ætluðum nú líka að láta til okkar taka með þessum samskiptamiðli og halda úti fréttaveitu um okkur (í sumar). Af því er helzt að segja og sjá að júní, júlí og ágúst börnin áttu öll afmæli næstum því á réttum tíma, þe. á fæðingardegi sínum - nokkrir þó aðeins seinna. Þá hafa mjög skemmtilegar myndir komið upp úr vindla- og konfektkössum og fengið að líta dagsins ljós - meiriháttar gaman og eftirminnilegt.

Ég get vel skilið að allir vilja fara í sitt sumarfrí - það gerði ég líka og hélt aftur af pistlaskrifum í júlí og ágúst. Nú held ég að við séum flest komin aftur heim og byrjuð að undirbúa haustið og veturinn fyrir það sem gera þarf. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig við hægt og bítandi náum betur og meira saman með því að kasta inn kveðjum og myndum í vetur. Ég þarf áframhaldandi hjálp allra til þess að benda á þá sem ekki eru að fylgjast með eða hvernig hægt er að ná til þeirra sem hafa ekki svarað með tölvupósti, á síðunni okkar eða með þessum nýjasta samskiptahætti.

Þó svo að afmælisdagurinn okkar sé af mörgum tekinn sem sjálfsagt fyrirbæri og sumum finnist hann mega alveg líða hjá án athygli, þá held ég að það væri mjög skritið ef enginn segði: "til hamingju með daginn"! Þess vegna finnst mér það orðið miður þegar ég næ ekki vegna fjarskiptaleysis að óska okkur til hamingu og verð því rosalega glaður þegar einhver annar gerir það í minn stað; fleiri en ein kveðja hefur heldur ekki skaðað neinn hingað til. Ég sé líka að "like" takkinn kemur sér vel fyrir þá sem kíkja inn og vilja vera "memm"!

Ég mun líka seint þreytast á því að hæla myndavélum Snerpu, en eftir síðast pistil minn um þær, þá fjölgaði þeim margfalt, þannig að nú er hægt að horfa á bæinn okkar nánast frá öllum sjónarhornum. Ég vil samtímis hvetja okkur til að "lika" á Senrpu síðuna til að staðfesta þakklæti okkar til þeirra. Þá vil ég einnig þakka fyrir ábendingar um atburði sem snerta okkur beint eða óbeint - þær eiga gjarnan að komast inn á síðuna okkar til að halda okkur öllum vakandi um lífið og tilveruna í bænum okkar.

Kæru skólasystkin. Af framansögðu tel ég að stofnun og innlegg okkar í facebook hafi sannað sig á reynslutímanum og sé komin til að vera áfram. Ég vil ítreka þakklæti mitt til þeirra sem ýta á "like" takkann og einnig þá sem setja texta í "comments" eða athugasemdir, Mér finnst það samband sem ríkir í hópnum okkar vera gífurlega dýrmætt og það verður veðrmætara með hverju innleggi. Orðum mínum til stuðnings þessum fyrsta haustpistli er í kvæðinu "Hver dagur á nýjan söng" eftir Þóru Jónsdóttir.

Hver dagur á nýjan söng
um ljós og skugga dægranna,
ris öldunnar
flug skýjanna,
slóðir mannanna um óljósan veg.

Ég hlusta gegnum veðrin
á stefin,
stilli minn róm
að strengleik hvers dags.

Megi rödd mín hljóma
í lofsöngnum.

09.06.2015 19:58

"Að taka púlsinn á tilverunni ........... "

Kæru skólasystkin!

Hvað er það fyrsta sem þig viljið sjá eða athuga þegar þið kveikið á tölvunni eða símanum á morgnana? Ég t.d. opnaði alltaf fyrst inn á póstinn (og núna einnig facebókina), síðan inn á heimasíðuna okkar þar sem ég ræsi tengilinn "Vefmyndavélar á Vestfjörðum". Fyrir mig er þetta eins og í gamla daga að kíkja út um eldhúsgluggann á Engjaveginum á morgnana, horfa upp í Eyrarfjallið - á Gleiðahjallann og taka veðrið eða púlsinn á tilverunni. Undir þessum tengli eru fjórar "lifandi" myndavélar sem sýna Ísafjörð frá mismunandi sjónarhornum; ein myndavél sem horfir út Dýrafjörðinn frá Höfða og ein myndavél sem horfir yfir Bíldudal og út á Arnarfjörðinn í átt að Hrafnseyri.

Ég sat einn sunnudagsmorguninn og naut þess að horfa á uppáhalds myndavélina mína sem er frá Orkubúinu á höfninni og sýnir Eyrarfjallið alveg yfir topp. Ég var að tauta við sjálfan mig: "hvar slær hjarta þitt", þegar barnabarnið sem stóð við hliðina á mér sagði: "hérna afi" og benti vinstra megin á brjóst sér. Ég var nú eiginlega á allt annarri bylgjulengd og var að spá í af hverju þessi sýn á bæinn minn væri mér hjartfólgnari en aðrar. Af einhverjum ástæðum höfðar hún dýpra til mín en hinar og ég held að það sé nándin við fjallið, klettana og himinninn sem "kveikir í mér"!. Þannig sé ég fyrir mér að uppáhaldsvél Einars sé á Menntaskólaþakinu og sýnir honum alla bátana í höfninni, Didda uppáhaldsvél er sú sem sýnir Pollinn og inn í fjörð og Gísla uppáhaldsvél er sú sem sýnir honum Silfurtorgið. Ef þetta "kveikir" ekki nægilega í ykkur, þá finnið þið aragrúa myndavéla undir tenglinum "Vegasjáin", en þar er hægt að skoða allt landið frá flestum sjónarhornum.

Af hverju ættu einhverjar myndavélar svo sem að "kveikja í" okkur eða vekja upp einhverjar tilfinningar. Myndir eru í raun órjúfanlegur hluti af tilveru okkar og tjáningu. Hver man ekki eftir fyrstu kassavélinni og síðan ferkantaða flasskubbinum. Ég er viss um að eitthvert okkar lumar á mynd frá þeim tíma sem geymd er í umslagi í náttborðsskúffunni, undir koddanum eða innrammaða upp á vegg - ef allir mega sjá hana. Við höfum verið misiðin eða áhugasöm eða hvað það nú heitir við að taka og varðveita myndir á því formi sem verið hefur í gildi hverju sinni. Til einhvers eru þessar myndir teknar og oftast er það til að varðveita dýrmæt augnablik bæði til góðs eða til stríðni. Þannig urðu svokallaðar heimasíður til - þetta var hreinlega eitt form myndageymslu til að geta á auðveldan hátt skoðað og sýnt öðrum í stað þess að láta minningarnar grafast niður og gleymast í albúmum og vindlakössum.

Þannig kom að okkur að gera eins og hinir og heimasíðan "Ísfirskir bæjarpúkar 1954" var stofnuð. Mér þykir þessi síða gífurlega dýrmæt fyrir þær sakir að "hún erum við" og við erum ekki hver sem er. Við erum með innbyrðis skyld fjallagen sem sköpuðu okkur til að fæðast árið 1954, en það gerði okkur að einstökum krökkum sem fengu að alast upp saman, leika saman og ganga saman í skólann og gera okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag. Ef hvert og eitt okkar lítur í kringum sig og einnig í baksýnisspegilinn þá finns ekki sá árgangur á Íslandi og þó víðar væri leitað sem er bundinn eins sterkum tengslum og við. En eins og tæknin flýgur áfram þá drögumst við með hvort sem við viljum eða ekki. Þannig hefur "nýjabrumið" yfirgefið heimasíðurnar og nýrri miðlar eins "Facebook", "Twitter", "Instagram", "Snabchat" og fleira tekið við "að taka púlsinn á tilverunni".

Ég veit að fleirum en mér þykir vænt um heimasíðuna okkar. En þrátt fyrir að vera einstök og samheldin, þá verður ekki horft framhjá þeirri staðreynd í dag að fleiri opna örugglega frekar inn á facebókina sína fyrst á morgnana heldur en að skoða vefmyndavélarnar á Ísafirði eða Moggann. Það var einfaldlega af þeirri ástæðu að ég stökk á það um daginn að stofan einnig slíka síðu fyrir "fjölskylduna" okkar. Eins og fram kemur á síðunni er tilgangurinn: "að opna spjallrás" fyrir okkur á meðan að heimasíðan stendur ennþá keik eins og ísjaki í hafinu og varðveitir áfram undirstöður ákveðins fróðleiks og söguþráð í tali og myndum um okkur.


Kæru skólasystkin. Með stofnun facebókar síðu okkar er ég á engan hátt að yfirgefa heimasíðuna, heldur frekar að þjappa okkur ennþá betur saman með "nútímalegum" samskiptahætti, til þess að "taka púlsinn á tilverunni". Texta mínum til stuðnings ætla ég að vitna í kvæði úr Hávamálum:

Ungur var ég forðum
fór ég einn saman,
þá varð ég villur vega;
auðigur þóttumk,
er ég annan fann,
maður er manns gaman.

Hrörnar þöll,
sú er stendur þorpi á,
hlýr-at henni börkur né barr.
Svo er maður,
sá er manngi ann.
Hvað skal hann lengi lifa?

Hjarðir það vitu,
nær þær heim skulu,
og ganga þá af grasi;
en ósvinnur maður
kann ævagi,
síns um mál maga.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn,
að aldrei deyr;
dómur um dauðan hvern.

03.05.2015 04:37

Senn kemur sumarið .............

Kæru skólasystkin!

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Já - í desember sögðum við gleðileg jól og strax eftir áramótin byrjuðum við á pælingunni "hvað boðar nýárs blessuð sól"; Matthías Jochumsson sagði að hún boðaði náttúrunnar jól eða allt sem væri hlýtt og notalegt og færi vel í skapið á okkur. Mér finnst ég ekki þurfa að hugsa mig mikið um til að sjá að á Íslandinu okkar já og í heiminum öllum hefur nánast allt verið á hvolfi, hvort sem það er veður, líf eða pólitík. Lítum því okkur bara nær .....

Á íslenska sumardaginn fyrsta, þá var ennþá vetur á Íslandi. Það er hreint ótrúlegt hvað það er auðvelt að láta þetta veður fara í pirrurnar á sér, þó það sé algjörlega utandyra. Ég fór þó út á tröppur snemma morguns til að lykta af því, en vá - það var sko ekki hundi út sigandi, nema fyrir þá sem verða að pissa þeim megin dyranna. En dagatalið er örugglega rétt og við ætlum ekki að breyta klukkunni þó allir aðrir geri það, þannig að það er í raun ekkert annað í stöðunni en að fara í Max eða 99°Norður gallann og láta sig hafa það - við erum jú algjörir 1954 stálbítar.

Það vantaði þó slatta í hópinn þegar kom að síðasta Sólarkaffi sem er einn af aðal hittingarmöguleikum okkar. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að mörgum okkar finnst of snemmt að hitta aldraða einstaklinga að vestan, en það kemur nú hægt og sígandi að því að við komumst á þeirra tímaskeið. Þá má segja það galla á samkomunni að hún sé alltaf á suðvestur horninu, en síðast þegar ég fór landleiðina tók ég eftir því að vegurinn er mjög svipaður í báðar áttirnar; alltaf þó þrengri fjallmegin, því þeir sem aka sjávarmegin (útlendingar) eru alltaf innar á veginum þannig að hinu megin (suður) verður þrengra. Við verðum því að halda áfram að hvetja okkur til hittings, því þeir sem ná því eða geta í hvert sinn, geta happað hrósi í tíma og ótíma.

Myndir (gamlar sem nýjar) og myndatökurnar okkar verðum við líka að að huga að. Ég er sannfærður um að nóg er til af myndunum; vandamálið virðist vera að ná þeim út úr símunum. Ég er líka nokkuð viss um að flestir símanna okkar í dag eru með innbyggðan tölvupóst, þannig að með einu tölvupóstfangi og mynd í viðhengi er málinu reddað og vandamálið dautt. Eins og þið hafið séð fór ég hjáleið til að fá myndir af Sólarkaffinu og leitaði á náðir Spessa. Þannig verður það líklegast í auknum mæli að við notum "rafrænar leitarvélar" til að finna hvert annað og vera þannig í návist á svokölluðum nútíma samfélagsmiðlum - það hlítur að heita rafmagnaður hittingur.

Kæru skólasystkin. Að öllu gamni slepptu, þá er sumarið komið á Íslandi. Því fylgir hærra hitastig, meiri útivera og garðvinna, meiri ferðalög og samvera fjölskyldna og ættingja. Ég vil brýna okkur á að nota tímann - hann líður svo ótrúlega hratt; njótið hverrar mínútu og augnabliks í bæði samveru og til jákvæðra hugleiðinga. Það er ótrúlega auðvelt að senda smá skilaboð á SMS eða með tölvupósti eða Twitter eða hvað sem þið notið með svokallaðri "augnabliksmynd" sem gæti glatt eða kætt aðra en okkur sjálf á þessari einstöku stund sem okkur finnst ástæða til að taka mynd af fyrir "okkur sjálf"! Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í kvæði Hannesar Péturssonar, "Bezt eru vorin".

Bezt eru vorin, ekkert elska ég heitar.
Úr útlegð þyrpast syngjandi vötn
og litir sem mora í holtum og hlýjum drögum

Þá verða dýrin að lifandi hluta landsins;
lambféð á gljúpu túni, ernir á heiðum
svanir á engi, hrafnar í blautum högum
hneggjandi stóð sem öslar mýrarsund
tekur á rás og þýtur, bylgjast í breiðum .....

Bezt eru vorin. Þau tylla sér niður um stund
í líki bjartrar stúlku á skínandi ský
með skæri og nál og byrja hljóðlát að sauma
í hvíta dali ást sína og alla drauma.
Ofan af glampandi sólinni vinda þau bandið!
Og skorti liti, hengja þau beint frá himnum
hvelfingar regnbogannna
rekja þar sundur rautt og blátt og grænt
raða því upp á nýtt og sauma í landið.

03.04.2015 12:09

"Vorvindur ..........."

Kæru skólasystkin!

Okkur hefur verið tíðrætt um veðrið í vetur. Ég undraðist síðast af hverju við værum að fjargviðrast út af þessum umhleypingum sem við erum alin upp í og eigum að líta á sem sjálfsagðan hlut að vetri til. Eftir á að hyggja er okkur smá vorkun, því vetrarveðrið eins og við þekktum það var ekki eins síbreytilegt og óáreiðanlegt og núna - það hreinlega slær í og úr nánast sömu mínútuna milli snjókomu og rigningar, logns og hvirfilvinds. Það er þrennt sem stendur upp úr: við erum örugglega búin að gleyma veðrinu "okkar", sem var alls ekkert gott þegar ofan í það er gáð; það eru búnar að vera ákveðnar mynsturbreytingar á veðurfarinu sem við erum óvön og í þriðja lagi er upplýsingatæknin orðin slík að það er nánast hægt að lesa af tölvunni klukkan hvað við eigum að forða okkur í skjól eða fækka fötum fyrir í sólina.

En auðvitað hefur þessi ótíð eða óáreiðanleiki í veðrinu áhrif á allt og alla, þegar hlutirnir eru orðnir svona skipulagðir eins og allt í dag. Það er hreint ótrúlegt að það sé ekkert hægt að gera nema tölvan sé i lagi og við í netsambandi. Það er kannski þess vegna sem veðrið pirrar okkur - við náum ekki böndum á það í tölvunni. En einmitt þá hjálpar tæknin okkur að finna hvar það er betra en hér eða eins og við kjósum helzt að hafa það og þá getum við hreinlega flúið þangað með flugvélum sem við hingað til höfum treyst 100% á að skili okkur á draumastaðinn. Já, draumastaður okkur getur verið ólíkur og þegar upp er staðið hefur hann í raun ekkert með tölvur og netsamband að gera. Það er okkar innri maður sem er að stjórna því hvernig okkur líður hverju sinni og eiginlega hvernig við vinnum úr ólíkum kringumstæðum og látum hluti, lifandi og dauða, fara mismunandi í okkur og með okkur.

Páskarnir er sá tími sem við horfum örugglega til með margvíslegum hætti. Í biblíunni og google eru páskarnir í senn sorgar- og gleðihátið síðustu kvöldmáltíðar Jesú með lærisveinunum, krossfestingar hans og upprisu. Í minningu okkar kemur fram skíðahátíð með marvíslegum hætti, en þó fyrst og fremst að nýta hvern einasta dag fram á Dal sem bezt, alveg fram að sólsetri. Í dag hafa páskarnir í heimahögunum breyst í tónlistarhátíð með miklum veizluhöldum. Má með sanni segja að þrátt fyrir breytt veðurfar og ótíð til fjalla, þá hafi bærinn okkar ekki lagst í neina lognmollu, heldur svarað breyttum tíðaranda með "dunder och brak"! Samnefnarinn gegnum allar hefðir og þjóðfélagsbreytingar er samt alltaf heimahaginn og fjölskyldan okkar og vinir, sem ýmist eru þar eða ekki.

Uppruna okkar fær enginn breytt, ekki einu sinni tímans tönn, Það erum við sjálf sem ákveðum og tökum afstöðu hverju sinni, hvernig við vinnum úr þessum staðreyndum og hvernig við bregðumst við þessum breytingum. Páskarnir voru nokkurskonar endapunktur vetrarins og segja má að tónlistarhátið nútímans sé nokkur konar kveðjuhátið. Þeir sem ennþá fara á skíði setja þau í geymslu og undirbúa sig undir að fagna vorinu. Meira að segja hér á suðvesturlandinu má skynja vorangan í lofti með hækkandi hitastigi, dropa dettandi af snjóbráðnun á þakinu og syngjandi fugla út í trjágreinunum. Allir þessir litlu hlutir telja; telja veturinn niður, vorið upp og kjarkinn inn í okkur.

Kæru skólasystkin. Með þessum hugleiðingum vil ég fá okkur til að gleyma þeirri ótíð sem hefur haldið okkur og landinu í gíslíngu í vetur og kalla frekar fram hlýjar hugsanir sem fylgja páskunum og tilhlökkun eftir þeim verkum sem fylgja því að vorið sé að bresta á. Orðum mínum til staðfestingar í dag vitna ég í kvæðið "Vorvindur" eftir Ingimar Erl. Sigurðsson:

Vindurinn þeysir á villtum hestum
og vegurinn titrar af þrá.
Von er á langþráðum gleðigestum
sem grashörpu-strengina slá.

Vindurinn flytur í fangi breiðu
þær fannir sem þrjóskuðust við,
Von er á sólskini og sumri heiðu
og söngfuglsins blaðgræna klið.

Vindurinn þeysir veginn tilbaka
og vorfræjum sáir í spor.
Von er á hljóm milli hófataka
er himinninn syngur um vor.

01.03.2015 11:15

"Köld er nú tíð ............. "

Kæru skólasystkin!

Já - veturkonungurinn lætur aldeilis ekki hæðast að sér í dag; sendir hverja lægðina á fætur annarri yfir okkur og allt í kring svo landið er að drukkna í vatni eða snjó. En er þetta eitthvað öðruvísi en þegar við áttum öll heima á Ísafirði? Ég man mjög vel eftir hvernig hvein í fjöllunum, hvernig vatnselgurinn kom niður frá klettunum, milli húsa og út í sjó - tók einu sinni með sér heilan bílskúr inn á Strítu. Og mikill var snjórinn sem lagði heilu húsin í kaf, svo ekki sé talað um hvernig bílarnir í götunum hurfu einn af öðrum svo upp úr stóð aðeins útvarpsstöngin. Þar sem þetta var á þeim tíma talið eðlilegt, var ekki nein sérstök umræða um þetta fólks í milli eða í fréttamiðlunum. Það var eðlilega meira fréttnæmt ef óhöpp urðu, eins og sjóslysin og síðar snjóflóðin.

Sem betur fer hefur okkur tekist vel upp í að tryggja öryggi sjómanna og báta með margvíslegum og markvissum hætti svo orð hefur verið haft á í skýrslum hin síðari ár. Erfiðara hefur reynst að koma böndum á eðli náttúrunnar, en viðbrögð við henni hafa frekar byggst á mynstri veðurs og mögulegum afleiðingum í ljósi fyrirliggjandi landslags. Ekki hefur verið hlustað á þekkingu eða reynslu heimafólks, þar sem slíkar upplýsingar kallast óábyrgar sögusagnir. Í forvarnarskyni hefur verið farið út í miklar breytingar á vegum og landslagi sem setur mikinn og "öðruvísi" svip á umhverfið en áður. Það að hunsa fyrirliggjandi þekkingu mannsins hefur nú sannað sig æ ofan í æ þegar nýir vegir lokast í fyrstu snjóum, snjóflóðin koma ekki á varnargarðana heldur fara framhjá þeim og hýbýli neðan við garðana fara á flot þegar búið er að breyta hefðbundnum farvegi vatns og stefna honum í aðra leið sem átti að vera örugg "samkvæmt öllum útreikningum"! Hvort sem umhverfið heitir Landeyjarhöfn, Þröskuldar eða Eyrarfjall, þá gilda sömu náttúruöfl á öllum þessum stöðum og þeim verður ekki breytt með pennastrikum á teikniborði. Á sama tíma og verið er að rústa mjög svo fallegri ásjónu Eyrarfjallsins vegna "nauðsynlegs" umhverfisöryggis, sem mér vitanlega hefur aldrei ollið skaða, svelta bæjarbúar af peningaskorti í ómokuðum götum, samdrætti í heilbrigðisþjónustu og nauðsynlegum atvinnumöguleikum. 

Þegar við göngum gegnum bæinn okkar, fyllist maður lotningu yfir því hversu vel hefur tekist til við endurnýjun gamalla húsa og fegrun lóða kringum þau; einnig hversu vel hefur tekist til við endurnýjun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja. En einhvern veginn finnst mér þetta alfarið vera vegna einkaframkvæmda og ekki að bæjaryfirvöld standi heilshugar að eða á bak við þessa þróun. Er mögulegt að við séum bara að "fegra" bæinn fyrir augu aðkomumannsins þannig að framhliðin sé ólýsanlega falleg en á bak við séu raunverulegu vandræðin sem bara bæjarbúar fá að upplifa og líða fyrir. Ég vil ítreka að þetta eru nú bara hugleiðingar úr fjarska sem ekki eru byggðar á staðföstum tölum, heldur meira upprifjun á fyrri tíma sem borinn er saman við daginn í dag. Þrátt fyrir þetta "ástand" er alltaf jafn notalegt að koma heim, því þrátt fyrir öll veður og landslagsbreytingar er þar fólkið okkar sem við unnum og í gegnum það tengjumst við aftur fortíðinni sem við viljum muna eftir og minnast saman sem skemmtilegri og auðveldari á allan hátt miðað við í dag. Þrátt fyrir erfiðar kringumstæður, þá birtir oftast upp um síðir og sérstaklega á Eyrinni okkar þegar sólin brýst yfir fjallatoppana og hitastigið hækkar á milli fjallanna okkar.

Kæru skólasystkin. Ég vona að þögn sú sem ríkt hefur eftir síðasta Sólarkaffi sé ekki merki um að þið hafið lagt árar í bát. Ég bíð ennþá spenntur eftir að sjá einhverjar myndir af okkur fagna sólinni sem alltaf kemur aftur upp á sama stað og síðast, þrátt fyrir landslagsteikningar og umhverfisbreytingar. Ég hef skorað á sjálfan mig í kjölfar þessara hugleiðinga að auglýsa eftir og einnig sjálfur grafa upp gamlar myndir frá 1954 til 1974 eða þann tíma sem ég tel að við munum best eftir og bera saman við myndir í dag til að hvort tímans tönn hefur unnið meira á umhverfinu eða okkur. Máli mínu til stuðnings vitna ég í dag í kvæðið "Köld er nú tíð" eftir Friðrik Friðiksson.

Köld er nú tíð,
kólgandi stormur sér leikur um jörð,
hamast nú hríð,
hylja hér skaflarnir leiti og börð.
Vetrar und fönnum
vormagnið samt er í önnum.

Svo kemur tíð
sólin er ísana leysir af grund,
vorfrjóvgan blíð
vinna mun sigur á hamingjustund,
grundir þá gróa,
grængresi og blóm þekja móa.

Hræðast ei ber
harmanna tíðir og særandi þraut,
veturinn fer,
vorið mun færa þér hamingju í skaut.
Dafnar í harmi
dáð þér og kraftur í barmi.

Bið því og bíð,
brosandi gæfan mun vaxa úr neyð,
föðurhönd blíð
fjötrana sprengir og ryður þér leið,
veg gegnum vetur,
vorið að frói þér betur.

01.02.2015 14:31

"Að morgni ............."

Kæru skólasystkin!

Ég byrjaði fyrsta pistil minn þessa árs með spurningunni: "Hvað boðar nýárs blessuð sól" og kom þá við bæði í erlendum sem hérlendum fréttum um vonsku mannsins sem virðist ekki taka neinn enda. Við erum daglega upplýst um "afrek" einna eða fleiri aðila sem eru að aflífa einstaklinga og hópa fólks með grimmilegum hætti án þess að við fáum rönd við reist. Börn okkar voru látin læra nöfn þeirra "merku" manna sem hófu og stóðu að heimsstyrjöldunum. Ég ætla rétt að vona að barnabörnin okkar verði ekki upplýst og látin læra um þann sora sem er í gangi í dag - ekki ef við látum okkur það skipta. Þá kemur náttúrulega upp sú spurning: "af hverju á ég að vera að skipta mér af þessu"? Hér finnst mér nýja auglýsingaslagorðið "ekki gera ekki neitt" passa vel inn í. Þó svo að við í smæð okkar náum ekki framgangi í heimsbyggðinni, þá getum við alltaf og eigum að taka afstöðu heima hjá okkur, inn á vinnustað okkar og í nánasta umhverfi.

Ég höfðaði líka til sólarinnar í upphafi því við þekkjum hana af birtu og yl sem hún veitir; ekki aðeins í verki, heldur einnig þegar við hugsum til hennar. Þess vegna er hún notuð sem árlegt slagorð þegar við komum saman til að kætast og rifja upp gömul kynni og minningar frá fyrri tíð. Þegar betur er að gáð, þá er hún sem slík hvergi á dagskrá samkomunnar, heldur eigum við að minnast hennar með lotningu þegar við stingum upp í okkur rjómapönnukökunni. Ég held að enginn okkar hafi hugleitt hvað ást okkar til sólarinnar á Ísafirði er í raun sterk, því ekki eru allir eru sammála um að ísköld rjómapönnukaka með ískaldri sultu geti framkallað hlýju. Ég held að galdurinn með pönnukökunnni liggi í því að framkalla í okkur kuldahroll sem næst ekki úr fyrr en eftir við erum búin að knúsa hvert annað margsinnis og þá má segja að markmiðinu sé náð.

Allavega markar sólin tímamót með birtu og yl bæði inn í huga okkar og hjörtu sérstaklega þegar veðrið er búið að vera þannig að við "erum að gefast upp" á því. Þetta er í raun stórmerkilegt hvað sumir hlutir gera snúist "á móti okkur"; fréttirnar inni og veðrið úti. En fyrir þá sem ekki hafa áttað sig á því, þá er hægt að slökkva á hvoru tveggja og hreinlega "kósa sig" í hlutum eða umhverfi sem framkallar betri líðan. Við setjum fjölskylduna í fyrsta sæti og síðan ýmis efni sem dreifa huganum frá ytri kringumstæðum. Allavega þarf að ljúka Þorrablótunum áður en kemur að því að ná líkamanum í rétt eða betra ástand fyrir páska og vorverk. Í stað þess að hlaupa í ræktina í gamla daga, þá náðum við okkur á strik með reglulegri skíðaiðkun. Í dag er einhvern veginn aldrei nógu gott veður eða aðstæður til að stunda slíkt ekki til staðar, heldur þarf undirbúningurinn að gerast með ákveðnum hætti og á réttum tíma í ræktinni. Ef árangurinn verður ekki sem skildi, þá hefur próteinblandan verið röng, þannig að þegar veðrið kemur til móts við okkur, þá snýst hugurinn á móti svo ekkert verður af skíðaferðinni.

Er þetta aldurinn eða er þetta hugurinn sem getur leikið okkur svona grátt. Þetta er örugglega sitt lítið af hverju. "Við að vestan" höfum nú ekki verið þekkt fyrir að "sitja á rassinum". Við höfum orðið að hreyfa okkur til að lifa af. En öllu má ofgera eins og við eigum vanda til bæði í svokölluðu ofáti og ofhreyfingu. Ég man þann tíma þegar enginn mátti missa af graut eftir aðalmatinn sem og morgunkaffi, síðdegiskaffi og kvöldkaffi. Ég spyr mig ennþá hvernig þetta var hægt, bæði tímanlega séð og orkulega. Kannski hefur vinnan okkar breyst frá því að við brenndum öllu sem uppí okkur fór til þess að það hleðst bara utan á okkur í dag. Þetta hlítur að vera líkamleg "umbreyting" og ekki bara breytt vinnubrögð. Til að bregðast við aukakílóunum flúðum við af fjöllum eins og rollur í rétt og fórum að leggja stund á tæknivædda líkamsrækt. Niðurstaðan er nú að skila sé hægt og bítandi með ótímabærri slitgigt.

Kæru skólasystkin! Er nú ekki komið að stund endurskoðunar á lífsins gangi og nauðsynjum. Eitt er víst - það verður ekki aftur snúið! Hvernig ætlum við þá frá og með núna að forgangsraða tímanum okkar og fara með líkamann okkar? Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í kvæði Jóns Helgasonar, "Að morgni"!

Við hliðið mitt ég heimabúinn stend,
á himni ljómar dagsins gullna rönd;
sú gjöf mér væri gleðilegust send
að góður vinnudagur færi í hönd.

Ég aftanskinið óttasleginn lít
ef ekki dagsins próf ég staðizt get,
að mjakazt hafi ennþá út um fet
þess akurlendis jaðar sem ég brýt.

Með straumsins hraða nálgast æ sinn ós
hið eina líf sem mér er tryggt og víst,
ég aldrei veit er áfram hnöttur snýst
hvort oftar skal ég sjá hið glaða ljós.

Og þegar liggja laus við festarklett
þau landtog sem mér héldu fyrr við strönd,
en sortinn hinzti sígur yfir lönd,
þá sveimar hugur um minn gamla blett.

Þá sé ég hann er hryggilega smár,
því hörku brast mig oft að starfa nóg.
Of seint! Of seint! Um heimsins eilíf ár
ég aldrei framar legg þar hönd á plóg.

17.01.2015 14:10

"Hvað boðar nýárs blessuð sól .......... "?

Kæru skólasystkin!

Ég efa ekki að öll höfum við strengt einhvers konar áramótaheit í þá veru að laga eitthvað sem miður hefur farið eða fara mætti betur. Með 60 ár að baki er ekki seinna vænna en að taka til höndunum. Ef hins vegar ekkert er að hjá okkur, mætti fara að segja öðrum til, eins hokin við erum af þekkingu og reynslu. Já - mér finnst að við ættum að hætta þessu væli, það er komið nóg af þessu og það smitar út frá sér. Fréttablaðinu er stungið inn um póstlúguna hjá mér á kvöldin og um nætur, þannig að það er alltaf til staðar á morgnana. Á hverri einustu forsíðu hafa verið risafyrirsagnir og myndir um niðurbrotna einstaklinga eftir margra ára einelti og vanlíðan og hina sem leika sér að því að festa sprengjubelti og gemsa utan um konur og ungar stúlkur og sprengja þær svo í loft upp inn á markaði eða inn í verslunarbyggingu til að valda sem flestum skaða. Svo má núorðið ekkert segja sem skyggir á svona ástand eða uppákomu, því við eigum að fá að hugleiða með lotiningu gjörðir einstaklinganna til að skilja hvernig þeir vilja tjá huga sinn í verki. Mér finns þetta allavega ógeðslega ljótt og ég hlýt að mega segja það upphátt - til þess að allavega einhver byrji að tjá sig.

Hverju lofaði ég þá - fyrst ég byrja svona harkalegur í upphafi árs?. Ég lofaði auðvitað því, að ekki bara þegja eins og þetta kæmi mér ekki við. Ég lofaði því að tala með jákvæðni í stað neikvæðni, með uppbyggingu í stað niðurrifs og með hrósi þar sem það á við. Þó svo ég nái ekki til alheimsins, þá næ ég til nánasta umhverfis míns og okkar. Ég er sannfærður um að í sameiningu náum við að umbreyta heiminum þó ekki sé nema eitt hjarta í einu. Ég tel að með framkomu okkar, orðum eða gerðum, þá náum við að smita út frá okkur hugrekki sem margir þurfa á að halda í dag eins og t.d. Katý heitin gerði forðum. Ég bið okkur allavega, að ekki verða samdauna fjölmiðlunum á því að endalaust draga fram og mata okkur á öllu því ljótasta og ömurlegasta sem þeir telja svo áhugavert á hverjum degi.

Þið spyrjið ykkur örugglega hvernig þið náið til annarra en þeirra sem þið hittið dags daglega. Það hafa margir brosað í kampinn þegar einhver hefur talað um "hið neðra" eða "viti" og notað til þess mörg önnur orð. En það má með sanni segja að svokallaðir "netheimar" séu í raun þesi staður í dag. Má þá ekki segja að þar sem við erum með þessa heimasíðu okkar, að við tengjumst netheimum í ákveðnum skilningi? Eins og sagt hefur verið gegnum tíðina að til séu bæði góð öfl og vond, þá tel ég og vil að við séu góðu öflin í netheimum eða "the good guys"! Ég er þá ekki að meina að við eigum að fara að skrifhöggvast á við einhvern, heldur koma fram með góðri og traustri fyrirmynd. Það má vera að það sé auðveldara að skrifa svona á blað heldur en segja það upphátt, því það truflar enginn á meðan, með mótmælum eða útúrsnúningi. Það er að vissu leiti rétt, en málið er að það kemst ekkert á blað nema fara fyrst gegnum hugann. Þess vegna er það hugur okkar sem þarf að vera rétt stilltur hverju sinni, en læknisfræðilega séð gerist það með hjartanu.

Kæru skólasystkin. Einhver ykkar hugsa með sér að nú sé ég að taka of djúpt með árinni - en það er meiningin, því annars hef ég ekki vakið okkur til umhugsunar. Ég verð því mjög hissa ef enginn vill leggja þessum málstoð mínum/okkar orð í belg með því að tjá sig frekar. Þetta er pínulítið "flash-back" til þess tíma þegar við byrjuðum að eiga orðaskipti með/á síðunni okkar sem er nú á 5 aldursári. Okkur fanns þá mjög erfitt að segja eitt og jafnvel erfitt að segja ekki neitt; - en vilji maður leggja orð í belg, þá er bara að láta sig hafa það. Ég hvet ykkur nú til þess að hugleiða vel það sem hér stendur, því sameinuð stöndum við, en sundruð föllum við - en það skal aldrei verða sagt um okkur 1954 púkana. Orðum mínum til stuðnings valdi ég kvæði Matthíasar Jochumssonar, "Hvað boðar nýárs blessuð sól?", þar sem titillinn og ekki síður textinn á að tala sérstaklega til okkar allra núna:

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.

Ó, sjá þú drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið milda djúp, hið litla tár.

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búm við hin ystu höf.

30.11.2014 10:36

Hver byrjaði með: "Gleðileg jól ........"?

Kæru skólasystkin!

Fyrirsagnir fjölmiðla eru einróma um að í dag sé 1. sunnudagur í aðventu og jólin því að nálgast. Á Wikipediu stendur að "aðventa í Kristni sé fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag - og ef jóladag ber upp á sunnudegi, þá teljist hann til þess fjórða". Jólahátíðinni fylgir nú orðið mikill undirbúningur til þess að gleðja aðra og sjálfan sig, en upphafleg ætlunin var að minnast fæðingu frelsarans. Í fyrstu var það gert með hátíðarmat og drykk, en síðar bættust við gjafir og kveðjur með margvíslegum hætti. Hver kannast ekki við þá erfiðleika að "orða sig rétt", þegar verið er að velta fyrir sér textanum í jólakortið eða í rafmiðlana eins og nú tíðkast meir og meir. Það sem vefst meira fyrir mér er eiginlega: hvenær má fyrst byrja að segja "gleðileg jól" og síðan hvað lengi eftir jólin, en í síðara skiptið grípa margir til þess að segja "gleðilega hátíð eða "gleðilega rest"!

Þegar litið er til ársins í heild eru jólin örugglega tími mestra tilfinninga hjá öllum aldurshópum nema kannski yngsta og elsta. Þetta er tími sem allir vilja vera saman, þar sem liðinn stund eða tímar eru rifjaðir upp og því mikið af minningum sem hrannast fram. Þetta er líka tími sem bæði hristir upp í og einnig sameinar fjölskyldu og ættarbönd .......... og ekki veitir af í dag! Jólin eru líka tími til að minnast og minna á hluti, bæði góða og ekki góða, sem þó sumir ýta til áramótanna til að geta byrjað nýja árið með "hreinum huga" eða "hreinu borði"!

Eins og ég hef keppt að í gegnum árin með umræðuna á síðunni okkar er að "þjappa okkur saman" eins og 1954 fjölskyldu. Ég tel að þó við séum ekki endalaust að tala saman, þá muni mikið um allar góðar hugsanir - bæði hljóðar sem upphátt - sem beinast til okkar hvar sem við erum stödd. Ég gleymi ekki ennþá (vonandi þó á elliheimilinu) einu atviki í vinnunni - sem ég kalla "að ég varð fyrir" á Þorláksmessu fyrir mörgum árum. Það var búið að vera mikið at um haustið í að stytta biðlistana eftir gerviliða aðgerðum og jólin að detta á með mikilli tilhlökkun. Þegar ég er að hlaupa út úr dyrunum til að ná aðeins í búðir í lok dagsins. þá vindur starfsmaður sé að mér og segir mjög reiðilega: "ég vona að þú eigir ömurleg jól"! Ég vissi á þessu augnabliki ekki réttasta svarið eða hvort ég ætti ekki að svara heldur gera eitthvað; ég náði svo ekki að gera eða segja neitt, því hann hljóp á dyr og út. Það einkennilega (eða kannski ekki einkennilegt) var að þetta truflaði mig við jólainnkaupin og um öll jólin - það varð einhvern veginn allt öfugsnúið og óskemmtilegt. Eftir helgina fór ég beint til hans, tók utan um hann og þakkaði honum fyrir að vera frábær. Hans fyrstu viðbrögð voru, hvort hann hefði sent mér eða gefið mér eitthvað "í misgripum", m.ö.o. þá mundi hann greinilega ekki eftir því sem hann hafði hrópað til mín á Þorláksmessu. Þó ég viti ennþá ekki hvers vegna þessi orð voru sögð og gerandinn ennþá síður, þá meiddu þú ótrúlega mikið og ótrúlega lengi eftir á.

Allar götur síðan hef ég borið mikla virðingu fyrir þeim sem fann upp á þeim sið að segja óspart þessi tvö einföldu orð "gleðileg jól" á þessum tímamótum. Til viðbótar þessum orðum hafa menn komið með og bætt við margvíslegum þökkum fyrir samverustundir eða gjafir á líðandi ári sem og óskir um að það næsta verði gott og helzt ennþá betra en það gamla. Þannig tel ég miklu máli skipta hvernig við tjáum okkur við hvert annað og aðra, því eins og biblíutextinn segir "er orðið okkar beittara hverju tvíeggjuðu sverði". 

Kæru skólasystkin! Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og hátíðar með miklu þakklæti fyrir allt ykkar framlag á árinu sem er að líða. Ég bið ykkur Guðs blessunar og varðveizlu bæði nú og á komandi ári með ósk um að við getum áfram notið tengsla og samvista hér á síðunni sem og á komandi hittingum. Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur, "Á aðventu".

Í skammdegismyrkri
þá skuggar lengjast
er skinið frá birtunni næst
ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast
þú finnur blæinn
af Frelsarans helgiró -
hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður
hann dvelur - og sjá
þá dagar í myrkum rann
hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist
þitt hjarta skynjar
að hógværðin býr honum stað
þar sest hann sjálfur að.

Og jólin verða
í vitund þinni
að vermandi kærleiks yl
sem berðu bölheima til.
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 348
Gestir í gær: 100
Samtals flettingar: 215182
Samtals gestir: 38951
Tölur uppfærðar: 25.12.2024 06:53:56
clockhere